Landeigendur á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar krefjast tuga milljarða í bætur

Frá aðgöngum 4 við Kárahnjúka.
Frá aðgöngum 4 við Kárahnjúka.

Landeigendur á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar lögðu í gær fram kröfur sínar varðandi vatnsréttindi. Landsvirkjun gaf í dag út yfirlýsingu af því tilefni þar sem kemur meðal annars fram, að hæsta krafa um greiðslur fyrir vatnsréttindi, fyrir hönd 50 jarða við Jökulsá á Dal, sé upp á tæplega 96 milljarða króna og svari til alls stofnkostnaðar Kárahnjúkavirkjunar.

Landsvirkjun segir, að telja megi að hæfilegt endurgjald vegna vatnsréttindanna sé 150–375 milljónir króna.

Yfirlýsing Landsvirkjunar er eftirfarandi:

„Samningur um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um málsmeðferð til að ákvarða endurgjald fyrir þau var gerður hinn 13. desember 2005. Samningsaðilar eru annars vegar Landsvirkjun og hins vegar þeir eigendur vatnsréttinda við Jökulsá á Dal (Jökulsá á Brú), Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá sem gerðust aðilar að samningnum. Málið er rekið fyrir sérstakri fimm manna matsnefnd. Landsvirkjun lagði fram sína greinargerð hinn 7. apríl sl. og kröfugerðir vatnsréttarhafa voru lagðar fram 7. júní. Ráðgert er að málið verði flutt fyrir matsnefndinni í lok september nk. og er niðurstöðu hennar að vænta síðar á árinu.

Í kostnaðaráætlun vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar var gert ráð fyrir greiðslum til vatnsréttarhafa. Horft var til fordæma við mat á endurgjaldinu, einkum til Blönduvirkjunar. Miðað við verðlag í janúar 2006 námu greiðslur vegna vatnsréttinda Blönduvirkjunar 154,3 milljónum króna, en uppsett afl virkjunarinnar er 150 MW. Séu þessar fjárhæðir yfirfærðar á Kárahnjúkavirkjun, sem hefur 690 MW uppsett afl, mundu greiðslur til vatnsréttarhafa nema um 710 milljónum króna. Í greinargerð Landsvirkjunar var þetta mat tekið til nánari skoðunar í ljósi almennra lagasjónarmiða, fyrri úrlausna varðandi greiðslur fyrir orkuréttindi hér á landi og sérsjónarmiða er gilda um Kárahnjúkavirkjun. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að telja má hæfilegt endurgjald vegna vatnsréttindanna 150–375 milljónir króna.

Í kröfugerðum landeigenda koma fram mótmæli gegn sjónarmiðum Landsvirkjunar um verðmæti vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ljóst er að mikið ber á milli Landsvirkjunar annars vegar og vatnsréttarhafa hins vegar. En einnig hafa vatnsréttarhafar mismunandi skoðanir innbyrðis á heildarverðmæti vatnsréttindanna svo að miklu nemur. Þannig lagði Regula lögmannsstofa fram hæstu kröfuna fyrir hönd 50 jarða við Jökulsá á Dal. Í henni er þess krafist að Landsvirkjun greiði samtals tæpa 96 milljarða króna sem endurgjald fyrir öll vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er svipuð upphæð og allur stofnkostnaður virkjunarinnar. Það gefur auga leið að slík kröfugerð kemur Landsvirkjun á óvart og virðist til þess eins fallin að vekja upp væntingar sem flestum má vera ljóst að geta ekki staðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert