Yfirlýsing vegna kostnaðar við kosningabaráttu F-listans

Fréttavef Morgunblaðsins hefur borist eftirfarandi yfirlýsing:

„Vegna ítrekaðra og misvísandi frétta í blöðum um að F-listi frjálslyndra og óháðra hafi auglýst oftast í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, vill borgarstjórnarflokkur F-listans koma eftirfarandi á framfæri:

1) F-listinn auglýsti ekkert í sjónvarpi að frátalinni einni skjáauglýsingu á dag síðustu vikuna fyrir kosningar, en stærstu flokkar voru með langar, leiknar auglýsingar. Þá voru aðrir flokkar t.d. með auglýsingar á strætisvögnum, flettiskiltum og byggingum, en ekki F-listinn.

2) F-listinn lagði sérstaka áherslu á ódýrar blaðaauglýsingar og sparaði sér kostnað við auglýsingastofu við hönnun auglýsinga.

3) F-listinn auglýsti „oftast" í blöðum vegna þess að meðtaldar eru örsmáar og ódýrar auglýsingar með merki flokksins. 4) F-listinn var einungis með eina kosningaskrifstofu þótt æskilegt hefði að hafa þær fleiri.

Það er alveg ljóst að kosningabarátta Frjálslyndra í borginni var margfalt ódýrari en annarra flokka, svo munar tugum milljóna. Því lýsir F-listinn yfir furðu á þeirri fréttamennsku að horfa einungis á fjölda birtra auglýsinga í dagblöðum þegar lagt er mat á kostnað við kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna í borginni. Augljóst er af framangreindu að það gefur engan veginn rétta mynd af heildarkostnaði stjórnmálaflokka við kosningabaráttuna í borginni," að því er segir í yfirlýsingu F-listans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert