Efstur í læknadeild en ætlar ekki að verða læknir

Sveinn Hákon Harðarson
Sveinn Hákon Harðarson
Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson siggip@mbl.is
Sveinn Hákon Harðarson útskrifaðist um helgina úr læknadeild í líf- og læknavísindum með lokaeinkunnina 9,83, en einungis hefur einn nemandi útskrifast áður með svo háa einkunn.

Sveinn vildi ekki gera mikið úr einkunninni þegar Morgunblaðið hafði samband við hann, sagði hana að mestu koma frá rannsóknarverkefni hans sem lýtur að súrefnismælingum í augnbotnum. Hann sagði að rannsóknin hefði verið tvískipt, annars vegar hefði hún snúið að augnlyfjafræði og hins vegar súrefnismælingunum, en verkefnið er liður í stærra verkefni innan HÍ sem er talið geta valdið straumhvörfum í þekkingu og meðferð á augnsjúkdómum. Hann sagði að haldið yrði áfram með rannsóknir á súrefnismælingum á augnbotni og að fjöldi fólks kæmi að framkvæmd rannsóknarinnar en auk læknadeildarinnar tekur Verkfræðistofnun þátt í verkefninu.

Sveinn sagðist hafa lent óvart í þessum rannsóknum: "Ég byrjaði á svipuðum nótum annars staðar í rannsóknum sem tengjast augnlæknisfræði og eitt leiddi af öðru og því má segja að þetta sé hálfgerð tilviljun."

Heldur áfram rannsóknum

Sveinn sagðist ekki búast við því að verða læknir þrátt fyrir að útskrifast úr læknadeild: "Þetta er í raun og veru rannsóknarnám, ég fór eiginlega út úr læknanáminu og fór í þetta. Ég held áfram í þessum rannsóknum og maður sér svo sem ekkert fyrir endann á augnrannsóknum. Það verður hálferfitt að finna titil handa mér," bætti hann við. Sveinn hóf háskólanám sitt í efnafræði og lauk einu ári þar áður en hann fór yfir í læknadeildina og má því greina nokkurn áhuga á vísindum og raungreinum hjá honum og sagðist hann alltaf hafa verið með það á bak við eyrað að fara út í vísindi. Spurður um hvaðan hann hefði þennan áhuga kvaðst hann ekki vita það með vissu, sumir hefðu áhuga á þessu en aðrir hinu.

Sveinn hefur verið við nám í Háskóla Íslands síðan 1999 og býst við því að vera þar áfram næstu þrjú árin við doktorsnám. Ætla má að námið hafi tekið sinn tíma en hefur hann gefið sér tíma í eitthvað annað? "Jú maður hefur gefið sér tíma í almennt sprikl, fer í líkamsræktarstöðvar og reyni að hreyfa mig úti," sagði Sveinn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert