Yousef Tamimi enn fastur á flugvellinum í Tel Aviv

Yousef Ingi Tamimi.
Yousef Ingi Tamimi.

Salman Tamimi, faðir Yousefs Inga Tamimi, 17 ára Íslendings sem er haldið af landamæraeftirlitsmönnum á flugvellinum í Tel Aviv í Ísrael, segist ekki hafa heyrt í syni sínum frá því kl. 12.30, þar sem rafhlaða í farsíma hans virðist vera tóm. Yousef hafi nú beðið í herbergi í 12 tíma án þess að fá mat eða vatn, en vegabréfið var tekið af honum við komuna til landsins. Salman segist vita að hann sé ennþá þar, hafi talað við systur sína úti í Ísrael sem fylgist með framvindu mála, en ræðismaður Íslendinga er nú að vinna í málinu.

Salman segir þetta ekki í fyrsta sinn sem fjölskylda hans lendi í þessu, eiginkona hans hafi beðið á flugvellinum í 5 tíma árið 1990. Salman er af palestínskum ættum og segir það alvanalegt að Palestínumenn séu látnir bíða svona. Hann bendir á að frændi Yousefs, sem er Ísraeli, hafi komist í gegnum eftirlitið athugasemdalaust.

Salman segir landamæraverði ekki virða það þótt sonur hans sé með íslenskan ríkisborgararétt, þeir fari bara sínu fram. Hópur Breta sem lenti með sömu vél og Yousef þurfti að snúa aftur til Þýskalands, að sögn Salmans, þaðan sem vélin kom.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka