Langflestir Íslendingar líta á lýðræði sem besta stjórnarformið sem völ er á og aðeins færri telja kosningar frjálsar og sanngjarnar. Kemur þetta fram í niðurstöðum alþjóðlegrar könnunar sem IMG Gallup gerði í ár í 60 ríkjum. Könnunin er gerð undir yfirskriftinni „Rödd fólksins" og er gerð árlega.
Spurt er um afstöðu fólks til stjórnkerfis og stofnana, spillingar, alþjóðamála og afstöðu til þess sem efst er á baugi hverju sinni. Þrátt fyrir að flestir Íslendingar telji lýðræðið vera gott og kosningar séu vel framkvæmdar hér á landi töldu einungis um 43% þátttakenda könnunarinnar að Íslandi væri stjórnað samkvæmt vilja þjóðarinnar. Það er engu að síður töluvert hærra en meðaltal Vestur-Evrópuríkjanna sem er 31%. Í Austur-Evrópu, þar sem hlutfallið er lægst, telja einungis 22% að ríkjum sé stjórnað samkvæmt vilja viðkomandi þjóða.