Skíðalyftum af Hengilssvæðinu komið fyrir í Bláfjöllum

Þessa dagana er verið að koma fyrir tveimur nýjum lyftum og skíðahúsi á skíðasvæðinu í Bláfjöllum, n.t.t. á suðursvæðinu svokallaða, en umræddar lyftur voru áður að finna á Hengilsvæðinu. Það hefur nú verið lagt af sem skíðasvæði. Skíðadeildir Íþróttafélags Reykjavíkur og Víkings hafa því flutt sig um set og munu í framtíðinni bruna niður Bláfjallabrekkurnar.

Friðjón Árnason, rekstrarstjóri Skíðasvæðanna, segir framkvæmdir hafa gengið vel og má búast við að lyfturnar verði orðnar klárar eftir um hálfan mánuð. Hann kveðst vera bjartsýnn á góðan skíðavetur framundan. Um 10.000 manns mættu í brekkurnar fyrstu helgina sem skíðasvæðið var opnað í janúar sl. sem var met. Vonir standa til að það met verði slegið.

Aðspurður um hvenær brekkurnar verði opnaðar almenningi segist hann vonast til þess að það verði sem fyrst.

Hægt er að nálgast upplýsingar um skíðasvæðið með því að hringja í upplýsingasímann 530 3000 eða fara á vefslóðina www.skidasvaedi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka