Rætt um ræðu Jóns í upphafi þingfundar

Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson mbl.is/Brynjar Gauti

Rætt var í upphafi þingfundar í dag um ummæli Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, viðhafði um Íraksmálið á miðstjórnarfundi flokksins á laugardag. Þar sagði Jón, ákvarðanir íslenskra stjórnvalda á sínum tíma um málefni Íraks hefðu byggst á röngum upplýsingum og því verið rangar eða mistök. Einnig sagði Jón, að ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni bæri ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd Alþingis.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, tók málið upp og sagðist vona, að orðum Jóns á fundinum hafi ekki ætlað að vera yfirklór til að kaupa frið við kjósendur Framsóknarflokksins. Ögmundur sagði, að með orðum sínum hefði Jón tekið undir þann málflutning stjórnarandstöðunnar, að ákvörðun formanna stjórnarflokkanna að styðja hernaðaraðgerðir í Írak árið 2003 hefði verið ólögmæt og spurði hvort Jón og Framsóknarflokkurinn myndu styðja tillögu um að stofna rannsóknarnefnd um málið.

Jón sagði, að um hefði verið að ræða framsöguræðu á flokksfundi þar sem verið var að undirbúa málefni fyrir sérstakt málefnaflokksþing Framsóknarflokksins í febrúar. Sagði Jón, að Ögmundur hefði lesið miklu meira úr orðum sínum en efni væri til og vísaði til þess, að fram hefði farið lögfræðileg athugun á málinu og niðurstaðan verið sú, að farið hefði verið að lögum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði að ræða Jóns væri sérkennileg en hann hefði talað þannig, að þetta væri mál sem hann ætti aðeins við Framsóknarflokksins. Sagði Ingibjörg Sólrún, að um væri að ræða mál, sem formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ættu við þjóðina og það snérist ekki bara um lögmæti heldur siðferði og formenn ríkisstjórnarflokkanna, ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn bæri siðferðilega ábyrgð á því, að hafa tekið þessa röngu ákvörðun.

Vísaði Ingibjörg Sólrún einnig til þess, að á sínum tíma hefði Morgunblaðið skrifað þannig um orð hennar, þegar hún vildi að Íslendingar færu af lista yfir hinar staðföstu þjóðir, að um væri að ræða ístöðuleysi Samfylkingarinnar að vilja ekki vera á listanum. Sagði Ingibjörg Sólrún, að ríkisstjórnin og ráðamennirnir hefðu afvegaleitt þjóðina og skulduðu henni afsökunarbeiðni.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að formaður Framsóknarflokksins hefði gert tvær tilraunir til að þvo af flokknum óþægileg mál. Fyrsta tilraunin hefði verið að reyna að þvo af flokknum stóriðjustefnuna og nú væri gamla Framsókn komin með skottið niður og byrjuð að mjaka sér í stjórnarandstöðu þrátt fyrir 12 ára ríkisstjórnarsetu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði sérkennilegt þegar talað væri eins og Ísland hafi verið beinn aðili að innrásinni í Írak. Geir sagði, að ákvarðanir stjórnvalda á sínum tíma hefðu verið, að leyfða lendingar og flug í íslenskri lofthelgi í tengslum við hernaðaraðgerðirnar eins og oft hefur verið gert áður við svipaðar aðstæður. Þá hefði verið ákveðið að veita 300 milljónum króna til mannúðaraðstoðar og enduruppbyggingar í Írak og þá fjárveitingu hefði Alþingi veitt. Síðan hefði ríkisstjórnin tekið ákvörðun um, að amast ekki við því, að Ísland væri á lista yfir hinar svokölluðu staðföstu þjóðir. Sagði Geir það vera furðulegt stærilæti í fólki, að halda að Íslendingar skipti einhverju máli í alþjóðasamhengi; að afstaða þeirra hafi skipt einhverju máli í tengslum við Íraksmálið.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar sagði, að greinilega væri komið upp alvarlegt ágreiningsmál í ríkisstjórn. Iðnaðarráðherra kallaði það ranga ákvörðun og mistök sem forsætisráðherra segði að hafi aðallega falist í mannúðaraðstoð. Hvaða skrípaleikur er þetta? spurði Mörður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert