Hugsanlegt að Cantat-3 strengurinn verði óvirkur í tvær til þrjár vikur

Morgunblaðið/ Ómar

Bilanagreining á Cantat-3 sæstrengnum bendir til að um svokallaða einangrunarbilun sé að ræða, og er hún á um þriggja km dýpi á milli Íslands og Kanada. Líklegt er að kalla þurfi til viðgerðarskip til að gera við bilunina, og því er hugsanlegt að strengurinn verði óvirkur í tvær til þrjár vikur, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Farice hf.

Þetta getur haft þau áhrif að netnotendur séu alveg sambandslausir við útlönd, eftir því hvar þeir kaupa netþjónustu. Cantat-3 liggur frá Kanada til Bretlands, Danmerkur og Þýskalands, með greinum til Íslands og Færeyja. Hann bilaði í gærkvöldi. Bilunin olli rofi á allri fjarskiptaumferð um strenginn. Reynt verður að koma á sambandi til bráðabirgða, segir í tilkynningunni.

„Viðskiptavinir Farice á Íslandi og í Færeyjum hafa notað bæði sæstrengina Farice-1 og Cantat-3 fyrir flutning fjarskiptaumferðar sinnar og eru truflanir af völdum bilunarinnar því ekki mjög alvarlegar hjá þeim, en þó má búast við hægari Internetumferð,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Aftur á móti megi búast við að aðrir þjónustuaðilar, sem einungis hafa notað Cantat-3 fyrir umferð sína, verði fyrir verulegum truflunum og jafnvel algjöru rofi þangað til viðgerð hefur farið fram.

Í tilkynningu frá Símanum í nótt segir að óverulegar truflanir verði á talsímaumferð hjá fyrirtækinu af völdum bilunarinnar, en afkastageta þess á Netinu minnki þar sem bandbreidd til útlanda minnki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka