„Þökkum guði fyrir að hafa ekki farið lengra"

„Við erum allir lemstraðir en þökkum guði fyrir að hafa ekki farið örlítið lengra með flóðinu út í stórgrýti," segir Símon Haraldsson, sem lenti í snjóflóði ásamt tveimur félögum sínum í Esjunni á sunnudag.

Allir eru þeir félagar í Íslenska alpaklúbbnum og voru útbúnir ísöxum til vetrarfjallaferða auk mannbrodda. Þeir félagar voru komnir langleiðina á fjallið við Þverfellshorn þegar þeir brugðu sér aðeins út af hefðbundinni gönguleið til að komast í snjó þegar snjóflekinn undir þeim brast á 100 metra breiðum kafla og sendi mennina um 200 metra leið niður á við. "Maður reyndi að fálma með höndunum og gæta þess að mannbroddarnir rækjust ekki niður. Það gerðist raunar hjá mér og ég er heppinn að hafa ekki fótbrotnað við það."

Þörf á viðvörunarskilti

Með í för ásamt Símoni voru þeir Guðmundur Jóhannsson og Alexander Óðinsson. Var Guðmundur reyndastur þeirra félaga og segir Símon hópinn hafa farið mjög varlega á snjónum áður en snjóflóðið brast á en eigi að síður hafi farið sem fór. Telur hann í ljósi þeirrar miklu umferðar sem er á fjallið að þörf sé á að setja upp viðvörunarskilti vegna mögulegra snjóflóða en Esjan er skæð snjóflóðagildra.

Snjóflóðaýlur voru ekki meðal búnaðar og segir Símon snjómagnið ekki það mikið að hætta hafi verið á því að grafast undir farginu heldur frekar að berast með flóðinu út í urð neðar í fjallinu. Það gerðist þó ekki eins og fyrr gat.

Voru þrjá tíma niður

Þegar mennirnir stóðu á fætur voru þeir lurkum lamdir en tókst að komast af sjálfsdáðum niður í bíl og tók það ferðalag þrjár klukkustundir sem er um sexfalt lengri tími en tekur að rölta niður Esjuna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert