Ískönnunarflug stendur nú yfir

Mynd úr evrópska ratsjártunglinu Envisat.
Mynd úr evrópska ratsjártunglinu Envisat. mbl.is

Ein af þyrlum landhelgisgæslunnar er nú í ískönnunarflugi vestur af landinu. Hún lagið af stað skömmu fyrir hádegi en áhöfnin hefur ekki orðið vör við mikinn hafís. Einungis varð vart við íshrafl en skygni var slæmt og lenti þyrlan í ísrigningum á leiðinni. Skömmu fyrir klukkan tvö var þyrlan stödd 30 mílur vestnorðvestur af Deild og hafði einungis orðið vör við íshrafl. Þyrlan mun taka eldsneyti á Ísafirði og halda könnunarfluginu fram eftir degi.

Ekki var unnt að nota flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN, til ískönnunarflugsins þar sem verið er að breyta innviðum hennar svo hún geti tekið sem mestan farangur er hún fer á morgun áleiðis til Líbanon. Þangað mun hún meðal annars flytja tól til sprengjueyðingar.

Myndin sem hér sést er úr evrópska ratsjártunglinu Envisat. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fékk myndina í dag í gegnum samstarf við Oersted Tækniháskólann í Danmörku (DTU). Myndin er frá klukkan 11.57 í dag. Ísspangirnar eru greinilega í grennd við landið og sjást mjög vel og eins þéttari ís vestar. Ratsjármyndir eru óháðar birtuskilyrðum og skýjahulu og henta því afar vel til eftirlits með hafís

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert