Stígamót skora á ráðamenn þjóðarinnar að koma í veg fyrir klámþing

Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið.
Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið.

Stígamót hafa sent ríkisstjórn Íslands, þingmönnum, borgarstjórn Reykjavíkur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins auk ríkislögreglustjóra bréf þar sem athygli er vakin á kaupstefnunni SnowGathering. Þar munu framleiðendur klámefnis fyrir netmiðla koma saman til þinghalds hér á landi í næsta mánuði. Stígamót skora á ráðamenn landsins að taka höndum saman og koma í veg fyrir þessa ráðstefnu.

Stígamót vekja athygli á heimsíðunni snowgathering.com og benda á að sé heimasíðan skoðuð vandlega sé augljóst að fjölmargir stjórnendur risaklámframleiðslufyrirtækja munu flykkjast til Íslands. „Reykjavík er orðin að óskastað klámframleiðenda. Markmiðið er viðskiptalegs eðlis og Stígamót benda á að um er að ræða nýjar víddir í kaupum og sölu á konum í íslenskum veruleika,“ segir í bréfinu.

Þar segir ennfremur: „Ef skoðað er hverjir styrkja samkomuna kemur ýmislegt fróðlegt í ljós og við skorum á þingheim að skoða hverjir hafa skráð sig og fyrir hvað þeir standa. Ef slóðir eru raktar inn á heimasíður klámfyrirtækjanna má finna klám í sinni grófustu mynd. Sem dæmi má nefna slóðina http://www.sleazydream.com/ sem leiðbeinir m.a. um aðgang að vændi á Íslandi.

Það er ágreiningur um það hversu langt eigi að ganga í baráttunni gegn klámi, vændi og mansali. Sú skoðun er ekki óalgeng að klám sé aðeins saklaust myndefni, vændi sé grófara, en flestir eru sammála um að mansal sé nútímaþrælasala sem beri að fordæma. Stígamót vilja benda á að á milli þessara birtingarmynda kvenfyrirlitningar eru engin skýr mörk. Klám er aðeins myndað vændi og vændi er forsenda þess að mansal þrífist. Árið 2005 voru 19 konur í viðtölum hjá Stígamótum vegna afleiðinga vændis. Einhverjir munu eflaust segja að engar sannanir séu fyrir því að konurnar sem ganga kaupum og sölu hjá þessum risafyrirtækjum hafi verið seldar mansali. Við spyrjum á móti hvort þeir hafi einhverjar sannanir fyrir því að á meðal þeirra finnist ekki fórnarlömb mansals. Klám er bannað á Íslandi og það er bannað að auglýsa og hafa milligöngu um vændi. Mansal er líka bannað,“ segir í bréfinu.

Í lokin benda Stígamót á að Íslandi hafi Íslendingar sýnt að „ef við viljum ekki fulltrúa skipulagðra samtaka lögbrjóta til landsins, þá getum við stöðvað þá. Það kom m.a. í ljós þegar fulltrúar Hells Angels gerðu tilraun til þess að náfótfestu á landinu. Á Stígamótum trúum við ekki að þessi samkoma muni verða liðin. Við skorum á ykkur hvert og eitt úr þeirri valdastöðu sem þið gegnið að taka höndum saman og koma í veg fyrir hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert