Dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sambýliskonu sinnar. Brotið, sem maðurinn var fundinn sekur um, var framið árið 2002 þegar stúlkan var 11 ára. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 600 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir að káfa á stúlkunni innan klæða á heimili þeirra árið 2002. Hann var einnig ákærður fyrir að hafa þuklað á henni utan klæða í húsbíl árið 2005 en var sýknaður af því vega sönnunarskorts.

Maðurinn neitaði sök en fjölskipaður héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að ekki sé varhugavert að leggja til grundvallar dómi vitnisburð stúlkunnar enda hafi ekkert komið fram sem dragi úr sönnunargildi hans. Þvert á móti sé vætti stúlkunnar stutt öðru, sem komið hafi fram en í því ljósi og að öllu virtu verði frásögn hennar talin einkar trúverðug.

Segir dómurinn að maðurinn hafi framið brotið inni á heimili barnsins þar sem það lá sofandi og varnarlaust. Með því hafi hann brotið gróflega gegn stúlkunni og því trausti sem hann naut sem stjúpfaðir hennar. Þá hafi brot mannsins orðið fjölskyldunni til mikillar bölvunar og fjölskyldan hafi sundrast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka