Kröfur um minni urðun munu umbylta sorphirðu

eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stórhertar kröfur um urðun lífræns úrgangs á næstu árum munu að öllum líkindum leiða til þess að sett verði upp sérstök tunna fyrir söfnun pappírs við heimili í höfuðborginni, í því skyni að draga úr urðuninni frá og með ársbyrjun 2009. Þetta kemur fram í máli Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar, sem útilokar ekki að fleiri sorpflokkum verði síðar bætt við pappírstunnuna.

Kröfurnar herðast svo enn frekar árið 2013 og eru sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins nú að íhuga fýsileika þess að greina lífrænan úrgang – þ.m.t. matarleifar – frá heimilissorpinu með sérstökum pokum, jafnvel maíspokum, sem yrðu e.t.v. flokkaðir á færibandi.

Breytingarnar, sem eru komnar frá Evrópusambandinu, ESB, munu verða enn frekari hvati til endurvinnslu á Íslandi og má segja að með þeim sé núverandi sorphirðufyrirkomulag að renna sitt skeið á enda.

Svo gæti farið að sorphirðugjald á höfuðborgarsvæðinu tæki senn mið af fyrirhöfninni við að sækja tunnurnar, líkt og þekkist víða erlendis.

Flokkun lífræna úrgangsins, sem ýmsir niðurbrjótanlegir sorpflokkar heyra undir, mun krefjast ólíkra lausna og verður, að sögn Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, niðurstaðan líklega blanda mismunandi leiða, á borð við moltugerð og brennslu. Eins og kom fram í úttekt Morgunblaðsins fyrir skömmu hefur endurvinnsla orðið að milljarðaatvinnuvegi á Íslandi á síðustu árum og mun hið nýja sorphirðuumhverfi án efa örva þann öra vöxt sem orðið hefur á því sviði.

Björn vísar á bug þeim fullyrðingum talsmanna endurvinnslufyrirtækjanna og Úrvinnslusjóðs að sveitarfélögin hafi gerst sek um aðgerðaleysi í þessum málaflokki.

Nánari umfjöllun um málið er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert