Gert ráð fyrir að ný Grímseyjarferja kosti um 350 milljónir

Vegagerðin segir, að í byrjun þessa árs hafi verið reiknað með að kostnaður við kaup og endurbætur á nýrri Grímseyjarferju sé um 350 milljónir króna. Áætlað var að endurbótum á ferjunni yrði lokið 25. maí í vor en afar ólíklegt sé að verktakinn geti staðið við þá dagsetningu.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Morgunblaðið í vikunni, að kostnaður við breytingar á „nýrri" Grímseyjarferju væri orðinn a.m.k. 500 milljónir króna og a.m.k. 100 milljónir eigi enn eftir að bætast við. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði við Morgunblaðið í dag, að þessar fullyrðingar væru út í loftið og algerlega ábyrgðarlausar.

Nú hefur Vegagerðin birt upplýsingar um kostnað við skipið. Þar kemur fram, að ákvörðun um að kaupa notað skip hafi verið tekin á árinu 2005 en nýtt skip hefði kostað 700-800 milljónir króna samkvæmt könnun ráðgjafa Vegagerðarinnar.

Í nóvember 2005 var keypt farþega- og flutningaferjan Oliean Arann frá Írlandi en skipið var smíðað í Englandi árið 1992. Vitað var að ferjan var í slæmu standi en eigi að síður með lítið notuðum aðal- og ljósavélum. Kaupverð var 102 milljónir króna á þáverandi gengi.

Endurbætur voru boðnar út á Evrópska efnahagssvæðinu í desember 2005, tilboð opnuð í febrúarbyrjun 2006 og verklok áætluð 31. október 2006. Upphaflegt samningsverð eftir útboð var 117 milljónir króna. Auk þess var keyptur losunar- og lestunarbúnaður frá Noregi að upphæð 54 milljónir króna. Samningsverð eftir útboð því 171 milljón króna.

Tilboði Vélsmiðju Orms og Víglundar tekið og skrifað undir í aprílbyrjun 2006. Vegna óska Grímseyinga bættust svo við endurbætur en þar var um að ræða nýja yfirbyggingu, viðbætur og endurnýjun á íbúðum áhafnar, gagngerar breytingar á efri og neðri farþegasal, perustefni og fleira.

Sumarið 2006 kom í ljós að endurbætur myndu kosta meira en upphaflega var áætlað. Þannig hækkaði verðið um nærri 39 milljónir vegna gengisbreytinga frá því að tilboð voru opnuð og að auki hækkaði kostnaðurinn um tæpar 59 milljónir króna vegna aukinna krafna eftirlitsaðila.

Vegagerðin segir, að í ársbyrjun 2007 hafi verið reiknað með að endurbætur myndu kosta um 230 milljónir króna og að þeim yrði lokið 25. maí 2007. Með kostnaði við eftirlit hafi verið og sé áætlað að skipið kosti því alls um 350 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert