Níu þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bleika steina

Í dag fagna konur á Íslandi með margvíslegum hætti en þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Vegna þessa skrýðast margir einhverju bleiku og í tilefni dagsins afhenti Femínistafélag Íslands á Austurvelli bleiku steinana en það eru hvatningaverðlaun félagsins. Að þessu sinni fengu níu þingmenn Norðvesturkjördæmis steinanna en engin kona úr kjördæminu situr nú á Alþingi.

Þrátt fyrir að engin kona sé í þingmannahópnum staðhæfðu karlarnir sem tóku á móti bleiku steinunum að þeir myndu vinna að jafnréttismálum.

Aðspurð hvort einhver árangur hefði verið af afhendingu bleiku steinanna undanfarin ár, sagði Silja Bára Ómarsdóttir, ráðskona atvinnu - og stjórnmálahóps Femínistafélags Íslands, að hvatningaverðlaunin hefðu tvímælalaust borið árangur. Nefndi hún sem dæmi þegar verðlaunafé fyrir sigur í efstu deild kvenna í knattspyrnu hefði verið hækkað til jafns við sigur í efstu deild karla árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert