Konur hafa 66% af launum karla fyrir fullt starf

Launamunur kynjanna meðal félagsmanna í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SÍB) hefur minnkað, en þetta kemur fram í kjarakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir SÍB í mars síðastliðnum. Ef miðað er við grunnlaun er kynbundinn launamunur félaga í SÍB nú 10,8% og 12,9% þegar miðað er við heildarlaun. Fyrir um áratug var munurinn tæp 15%.

Friðbert Traustason, formaður SÍB, segir ánægjulegt að launamunur miðað við dagvinnulaun hafi minnkað. Þó að enn sé langt í land sé þetta þó greinilega skref í rétta átt.

Í samantekt um niðurstöður könnunarinnar kemur fram að þegar einungis eru skoðuð heildarlaun karla og kvenna sé launamunur kynjanna sláandi. Karlar hafi að meðaltali 517.000 krónur í laun fyrir fullt starf á mánuði en konur 343.000. Konur hafa því 66% af launum karla, en hlutfallið var 63% árið 2004.

Ýmsar skýringar séu á launamuninum sem skoða þurfi. Þar megi nefna starfsval eða vettvang innan fyrirtækis, menntun starfsmanna, starfsaldur og heildarvinnutíma. Þegar búið er að meta áhrif hlutastarfa, menntunar, starfsaldurs og fleiri þátta, sé niðurstaðan þó óviðunandi vegna hins kynbundna launamunar, segir í samantektinni.

Fram kemur að karlar virðast fá um 8% hærri heildarlaun með aukinni menntun. Karlar í störfum millistjórnenda hafa hærri laun en konur í sambærilegum störfum, sérstaklega hafa karlar með stuttan starfsaldur hærri laun en konur með sama starfsaldur, segir í samantektinni.

Starf sem hefur skilað árangri

Friðbert kveðst telja að minnkandi launamun milli kynja megi rekja til öflugs starfs sem miði að því að draga úr launamun kynjanna innan samtakanna og samstarf við bankana hafi skilað árangri. Sérstakar jafnréttisnefndir séu að störfum í öllum fjármálafyrirtækjum sem fylgist með að starfsfólki sé ekki mismunað í launum. Þá hafi skylda til að auglýsa laus störf áreiðanlega haft sitt að segja. Einnig hafi sýnt sig að stjórnendur fjármálafyrirtækjanna vilji gera sitt til að draga úr launamun kynjanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert