Stærsta einstaka ákvörðun stjórnvalda snýr að gjaldmiðlinum

Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs Íslands mbl.is/Golli

Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs, segist telja að stærsta einstaka ákvörðunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir hafi með gjaldmiðil landsins að gera. Þetta kom fram á níutíu ára afmælisfundi Viðskiptaráðs í dag.

„Á undanförnum misserum hefur peningahagstjórn ekki skilað þeim árangri sem henni er ætlað. Ástæður þess er margþættar en afleiðingin hefur verið sveiflukenndur gjaldmiðill og háir stýrivextir. Til að skapa fyrirtækjum stöðugt og hagfellt umhverfi er mikilvægt að gera bragarbót á. Viðskiptaráð telur mikilvægt að halda uppi faglegri og virkri umræðu um stöðu krónunnar og mun ekki skorast undan ábyrgð sem leiðandi aðili í þeirri umræðu," sagði Erlendur.

Sagði Erlendur að Alþingiskosningarnar í vor hafi verið sögulegar fyrir margra hluta sakir.

„Þegar atkvæði höfðu verið talin var ljóst að ríkisstjórn síðustu 12 ára hélt meirihluta, en munurinn hljóp á einungis einum þingmanni. Það varð á endanum niðurstaða stjórnarflokkanna að ekki væru forsendur til áframhaldandi samstarfs.

Ný ríkisstjórn var mynduð af Sjálfsstæðisflokki og Samfylkingu, tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins. Þetta skapar einstakt tækifæri til að hrinda af stað miklum framförum. Með atkvæði ríflega tveggja þriðjunga þjóðarinnar á bak við sig er ljóst að styrkur stjórnarinnar til að vinna í umdeildum málum er ótvíræður. Þetta er tækifæri sem ráðamenn þjóðarinnar ættu ekki að láta renna sér úr greipum.

Þegar nýr stjórnandi tekur við starfi er oft talað um að fyrstu 90 dagarnir leggi línurnar fyrir komandi tíma. Þannig gefst honum tækifæri til að hrinda af stað breytingum, endurskoða stefnumörkun og stokka upp ýmis mál er hafa legið óhreyfð í langan tíma. Nýti stjórnandinn ekki þessa fyrstu mánuði vel er hætt við því að hann missi tækifærið til að gera gagngerar breytingar.

Stjórnarseta ríkisstjórnar lítur ekki alveg sömu lögmálum, þar sem störf þingsins fara fyrst og fremst fram á veturna. Því myndast oft ákveðið millibilsástand eftir kosningar.

Núverandi ríkisstjórn hefur þegar lokið sínum fyrstu 90 dögum við völd en það er ekki þar með sagt að tónninn hafi verið kveðinn. Ég tel að næstu 90 dagar, upphaf þings og þau störf sem framundan eru tengd því, komi til með að gefa til kynna hvers megi vænta."

Að sögn Erlendar berst Viðskiptaráð fyrir málum er varða viðskiptalífið allt, ekki þröngum hagsmunum fáeinna fyrirtækja. „Markmið ráðsins er að efla og styrkja íslensk viðskipti, svo koma megi Íslandi á efsta pall í alþjóðasamkeppni. Þannig aukum við þau efnislegu og samfélagslegu gæði sem koma til skipta í þjóðfélaginu, öllum landsmönnum til heilla. Í því felst styrkur Viðskiptaráðs," sagði Erlendur á afmæli Viðskiptaráðs Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert