Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma

Frá því í kosningabaráttunni 2006. Svandís, Ólafur, Vilhjálmur, Dagur og …
Frá því í kosningabaráttunni 2006. Svandís, Ólafur, Vilhjálmur, Dagur og Björn Ingi. mbl.is/ÞÖK

Það háttaði, að sögn fulltrúa fyrrum minnihlutans í Reykjavík, þannig til á miðvikudagskvöld að ekki náðist í Björn Inga Hrafnsson þar sem hann var þá kominn inn í rúm með flensu. Í gærmorgun tókst hins vegar að koma til hans boðum og var Alfreð Þorsteinsson milligöngumaður í málinu. Þá sat Alfreð fund í gærmorgun þar sem nýr meirihluti var myndaður.

Fundurinn fór fram með mikilli leynd á heimili tengdaforeldra Björns Inga, boðað var til hans upp úr átta og átti hann að hefjast klukkan tíu, en honum seinkaði til hálfellefu. Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir höfðu búið til grundvöll að samkomulagi og var farið yfir helstu skiptingar á embættum á fundinum. Mestur þungi var í umræðum um stjórnarsetu í Orkuveitunni, þar sem Björn Ingi varð að gefa eftir forystuna til Samfylkingarinnar, en hann hélt þó stjórnarmennsku.

Ber ekki saman um atburðarásina

Ljóst er að borgarfulltrúum nýs meirihluta og Sjálfstæðisflokksins ber engan veginn saman um atburðarásina og einkum ber í milli þegar kemur að útgáfu Björns Inga Hrafnssonar og sjálfstæðismanna. Veigamesti ágreiningurinn lýtur að deginum sem fundur meirihlutans og síðar borgarstjórnar fóru fram. Björn Ingi segist hafa fundað með meirihluta Sjálfstæðisflokksins og að fundurinn hafi engri niðurstöðu skilað. Hann segist hafa talað á þeim nótum að hann væri mjög ósáttur, ekki síst með að vera með allt vandræðamálið í kringum Orkuveituna og nýtt sameinað útrásarfyrirtæki í fanginu, þó að Sjálfstæðisflokkurinn hefði leitt það starf.

Túlkun sjálfstæðismanna á þeim fundi er mjög ólík. Þeir segja að Björn Ingi hafi mætt með sex punkta á fundinn, sem hann hafi lagt til grundvallar, þeim hafi fækkað í fimm og unnið hafi verið með þá. "Málefnaágreiningurinn fólst fyrst og fremst í því að Björn Ingi vildi að við seldum eftir tvö ár en við sögðum á næstu mánuðum. Samkomulag okkar á milli gekk út á að við færum í gegnum sölu- og samrunaferlið og svo myndu færustu sérfræðingar ráðleggja okkur með hvaða hætti væri best að selja. Um þetta var enginn ágreiningur og Björn Ingi lagði mikla áherslu á að borgarstjóri læsi þetta orðalag á fundinum."

En borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks segja að Björn Ingi hafi komið í bakið á þeim með ræðu sinni á fundinum. "Þá hugsuðum við: Hvað er að gerast?"

Það varð til þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók Björn Inga afsíðis og sagði ræðuna sérkennilega. "En þá sagði Björn Ingi: "Já, ég varð nú bara að tala svona út af mínu fólki."" Því er haldið fram af sjálfstæðismönnum að ekki aðeins hafi Björn Ingi handsalað það við Vilhjálm að full heilindi ríktu á milli þeirra og þeir myndu starfa áfram saman, heldur hafi þeir einnig fallist í faðma.

Björn Ingi gerir hinsvegar lítið úr tali um handsal og segir: "Það er misskilningur. Meirihlutafundi lauk eftir fjóra tíma án niðurstöðu. Síðan fer ég bara heim eftir borgarstjórnarfundinn. Ég talaði í síma við Vilhjálm í gærkvöldi [miðvikudagskvöld] og í morgun [fimmtudagsmorgun]. Þá ræddum við hvort ekki væri hægt að vinna úr þessu. En maður handsalar ekki í gegnum síma."

Frumkvæði frá Ólafi F. Magnússyni

Ólafur F. Magnússon átti ákveðið frumkvæði að því að semja fyrir hönd Frjálslynda flokksins, þó að hann hefði verið í leyfi síðan í febrúar. Ef til vill hefur spilað inn í það að hann áleit sig eiga harma að hefna gagnvart Vilhjálmi síðan borgarstjórnin var mynduð í vor. Og ef til vill hefði Margrét Sverrisdóttir getað náð saman við Sjálfstæðisflokkinn, en á móti kemur að þar brýtur einna mest á í afstöðu til orku- og auðlindamála.

Og annað sem olli því að sjálfstæðismenn voru ekki að semja við aðra flokka en Framsókn er að þeir virðast engan veginn hafa áttað sig á þeirri stöðu sem upp var komin. Sjálfir segjast þeir hafa "ef til vill barnalega einlæg" tekið orð Björns Inga trúanleg. Þegar Vilhjálmur hringdi í hann á miðvikudagskvöld var það vegna þess að aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lásu það úr ræðu Björns Inga að hann vildi jafnvel sprengja meirihlutann. Þeir voru því viðstaddir símtalið og segjast hafa tekið orð Björns Inga trúanleg um að hann væri í samstarfinu af heilindum.

Sjálfstæðismenn segja að Vilhjálmur hafi mælt sér mót við Björn Inga á heimili sínu klukkan 11 daginn eftir, þar sem þeir tveir ætluðu að funda. Svo átti stærri hópur að hittast í hádeginu og loks ætluðu formenn nefnda og ráða að hittast klukkan 13 í Höfða. Það er til marks um hversu einlæg þau voru í þeim ásetningi að sumir voru of seinir "vegna þess að þeir voru að ganga frá glærusýningu".

Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknar, mætir einnig undirbúinn á þann fund. Hann hringir hinsvegar í Marsibil Sæmundardóttur rétt fyrir eitt og segir henni að Björn Ingi sé ekki mættur og að hún þurfi því ekki að mæta. Þegar sjálfstæðismenn eru nýmættir, þá hringir borgarstjóri í Gísla Martein Baldursson og lætur hann vita af því að Björn Ingi hafi ekki mætt til sín fyrir hádegi. "Við sitjum þarna í smástund, enginn nær tali af honum, og fyrst verðum við áhyggjufull af því að eitthvað hafi komið fyrir hann. Allt þar til við fengum fréttir af því annarsstaðar frá að hann sæti á svikráðum með minnihlutanum."

Þá fara sjálfstæðismenn að hringja í allar áttir til að komast að því hvað sé í gangi, m.a. aðra borgarfulltrúa. En þá eru viðræður þegar komnar vel á veg hjá nýjum meirihluta. Björn Ingi fer síðan á fund Vilhjálms til að tilkynna honum um nýjan meirihluta og í framhaldi af því er send út fréttatilkynning og boðað til blaðamannafundar. Sjálfstæðismenn segja að hann hafi sagt við Vilhjálm á þeim fundi að ekkert hefði verið ákveðið, því hann vildi fyrst tala við Vilhjálm."

En þar ber mönnum ekki saman, frekar en um margt annað í þessari atburðarás. En það mátti heyra að borgarfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra voru mjög undrandi á því hvað sjálfstæðismenn voru seinir að taka við sér. Og að jafnvel hefði verið möguleiki á samstarfi sjálfstæðismanna og VG eða Frjálslyndra. "Við skiljum ekki hvernig Sjálfstæðisflokkurinn gat sofnað svona á verðinum." Eftir tólf á hádegi hafi síminn byrjað að hringja, en það hafi verið alltof seint. "Ég hugsa að okkar dyr hefðu jafnvel staðið opnar undir ákveðnum kringumstæðum," segir heimildarmaður úr röðum VG.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert