11-11 viðurkennir að verð hækki á nóttinni

Verslunin 11-11 hækkar verð á ákveðnum vörum um allt að 5% á nóttunni. Þetta viðurkennir verslunin í svari til Neytendastofu, að því er kom fram í fréttum Útvarpsins. Haft var eftir Tryggva Axelssyni, forstjóra Neytendastofu, að það sé lögbrot að breyta vöruverði á vissum tíma sólahringsins án auglýsingar.

Útvarpið sagði, að 11-11 telji sig vera í fullum rétti til þess að gera það út frá reglum um verðmerkingar ef að verðmerking í hillu og á kassa sé hin sama. Það sé löglegt skv. reglum um verðmerkingar að breyta merkingum og vöruverði.

Tryggvi Axelsson sagði hins vegar, að þetta væri vísbending um kerfisbundna villandi verðmerkingu. Í þessu tilfelli vakni upp spurningar varðandi viðskiptahætti, hvort þetta samrýmist 5. og 6. grein laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert