Hvergerðingur Bahamameistari í skák

Hvergerðingurinn Bjarni Sæmundsson varð á sunnudag Bahama-meistari í skák. Keppnin var nokkuð hörð en að eigin sögn hafði Bjarni heppnina með sér. Átta manns tóku þátt í mótinu sem stóð yfir í þrjár vikur með alls sjö keppnisdögum. Bjarni vann fimm skákir og gerði tvö jafntefli.

„Það kom sér eflaust vel fyrir mig að þeirra frægasti skákmaður tók ekki þátt í mótinu," hefur Suðurland.is eftir Bjarna. Að hans sögn er skákmenningin á Bahama nokkuð frumstæð. Eyjarnar hafi ekki sent skáklið á Ólympíuleikana síðan á níunda áratugnum. Engu að síður hafa fjölmiðlar þar í landi sýnt sigri Íslendingsins áhuga, án þess að hann sé þó orðinn landsfrægur.

Bjarni settist að í Nassasu, höfuðborg Bahamas, sem er eyjaklasi norðan Kúbu, í ágúst síðastliðnum. Þar starfar hann sem rafeindavirki á spítala og kann vel við sig. „Það tekur auðvitað tíma að aðlagast gjörólíku samfélagi," segir Bjarni en hann bjó um hríð í Hveragerði og tefldi í mörg ár með Taflfélagi Selfoss. Foreldrar hans eru Sæmundur Bjarnason frá Hveragerði og Áslaug Benediktsdóttir frá Stokkseyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert