Launajafnrétti árið 2072?

Árið 1980 voru heildaratvinnutekjur kvenna 46,6% af heildaratvinnutekjum karla. Tæpum þremur áratugum síðar, eða árið 2006, var hlutfallið komið upp í 61,3%. Haldi bilið áfram að minnka með sama hraða og verið hefur má gera ráð fyrir því að heildaratvinnutekjur karla og kvenna verði jafnar á Íslandi árið 2072.

Þetta eru meðal þeirra frumniðurstaðna sem rannsókn Jafnfréttisstofu á tekjumun karla og kvenna sem unnin er upp úr upplýsingum úr skattframtölum leiðir í ljós. Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri rannsóknasviðs Jafnréttisstofu, hefur unnið að rannsókninni ásamt Margréti Eiríksdóttur, hjá Háskólanum á Akureyri, og kynnti hann frumniðurstöðurnar á ráðstefnunni „Kynbundinn launamunur - Aðferðir til úrbóta“ sem Jafnréttisstofa stóð í dag fyrir í samstarfi við Ár jafnra tækifæra og félagsmálaráðuneytið.

Að sögn Ingólfs er munurinn á heildaratvinnutekjum þónokkur eftir landshlutum. „Meðan konur í póstnúmeri 101 Reykjavík eru með 70% af heildaratvinnutekjum karla og konur í 105 Reykjavík eru með 72% af tekjum karla, þá eru konur í Vestmannaeyjum aðeins með 47% af tekjum karla, konur á Reyðarfirði með 50% af tekjum karla og konur á Akureyri með 60% af tekjum karla,“ segir Ingólfur og tekur fram að þetta séu tölur án þess að tekið sé tilllit til vinnutíma, þar sem þær tölur liggi ekki fyrir eftir eftir póstnúmerum.

Árið 1991 voru konur með 73,9% af heildaratvinnutekjum karla að teknu tilliti til heildaratvinnutíma kynjanna. Árið 2000 var hlutfallið komið upp í 79,2% og árið 2006 var hlutfallið komið upp í 80,9%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert