Óttast um afdrif lífríkisins í Varmá

Veitt í Varmá. Stangaveiðifélag Reykjavíkur óttast afdrif lífríkisins í Varmá.
Veitt í Varmá. Stangaveiðifélag Reykjavíkur óttast afdrif lífríkisins í Varmá. mbl.is/Einar Falur

Stangaveiðifélag Reykjavíkur óttast mjög um afdrif lífríkis í Varmá eftir að mörg hundruð lítrar af klór láku úr geymi við sundlaugina í Laugaskarði og ofan í ána. Félagið segir að fiskar, stórir sem smáir, hafi fundist dauðir á bökkum árinnar.

Fram kemur á vef SVFR að fyrst í dag hafi Veiðimálastofnun fengið vitneskju um málið en hvorki Veiðifélag Varmár né leigutaki árinnar, í þessu tilviki Stangaveiðifélag Reykjavíkur, hafi verið látin vita af þessu alvarlega slysi.

„Hvorki bæjaryfirvöld né Sundlaug Hveragerðis virðist hafa séð sóma sinn í að tilkynna Veiðifélagi Varmár eða SVFR um stöðu mála,“ segir á vef SVFR.

Þá segir að: „Jafnframt vakna ótal spurningar þegar svona fréttir berast. Hvernig stendur á því að allt að þúsund lítrar af sterkri klórblöndu geta á annað borð lekið úr sundlauginni og út í einstakt lífríki Varmár? Að sama skapi vakna spurningar þess efnis hvers vegna ekki er brugðist fyrr við því ekki á að fara fram hjá neinum ef svo mikið magn af stórhættulegu efni hverfur á þennan hátt. Mætti áætla að viðbragðsáætlun væri til eða fylgst með svo hættulegum efnum. “

„Eigendur árinnar svo og leigutaki sem á bundnar milljónir króna í lífríki árinnar fengu að því er virðist enga vitneskju um slysið eftir eðlilegum leiðum og hafa enn ekki fengið að vita neitt! Að auki er allt það uppbyggingarstarf sem lagt hefur verið fram af hendi leigutaka svo og stangaveiðimanna að veði í máli sem þessu.
Mjög lítið vatn hefur verið í Varmá þar til í gær sem gæti hafa magnað upp eitrið sem í ána lak og stefnt lífríkinu í voða,“ segir á vef SVFR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert