Sýning á kosningaáróðri frá árunum 1880 til 1999 opnuð

Gamalt kosningaspjald.
Gamalt kosningaspjald.

"G-vítamín. Bráðnauðsynlegt bætiefni. Takist inn fyrir kosningar. Innihald: Baráttugleði, bjartsýni og kjarkur. Losnið við óbragð íhaldsáranna," stendur m.a. á litlum plastpoka sem inniheldur vítamíntöflu. Þetta er kosningaáróður Alþýðubandalagsins árið 1987, en Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur sett upp sýningu á kosningaáróðri frá árunum 1880 til 1999.

Á sýningunni má m.a. sjá hvernig baráttumál flokkanna fyrir alþingiskosningar í Reykjavík hafa breyst í gegnum tíðina og hvernig þeir hafa kynnt stefnu sína. Til að mynda gefur að líta á sýningunni kosningabæklinga, veggspjöld, flugmiða og viðvaranir til kjósenda, svo eitthvað sé nefnt. Sýningin var opnuð í gær og er á Reykjavíkurtorgi, Tryggvagötu 15.

Njörður Sigurðsson skjalavörður segir að Borgarskjalasafn Reykjavíkur eigi nú dágott safn af kosningaáróðri. "Og síðustu árin höfum við safnað þessu skipulega," segir hann. Spurður út í þann áróður sem sýndur er á sýningunn segir hann m.a. athyglisvert hve mikil harka hafi verið í kosningabaráttunni fyrr á tímum. T.d. séu auglýsingar frá árinu 1911 afar harðorðar. Á þeim tíma hafi og verið sendir út t.d. ónafngreindir flugmiðar, með svívirðingum um náungann.

Gögnin sýna stjórnmálaþróunina

Borgarskjalasafn Reykjavíkur bauð frambjóðendum í Reykjavík að vera við opnun sýningarinnar í gær. Birgir Ármannsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, sagði sýninguna afar forvitnilega. Á henni mætti m.a. sjá gögn sem sýndu stjórnmálaþróunina fyrstu árin eftir að Íslendingar fengu fullveldi. Hann bendir á að áður fyrr hafi t.d. verið meira um einstaklingsframboð og kosningabandalög en nú er. "Það sem er ekki síst athyglisvert fyrir mig sem sjálfstæðismann er að sjá hvernig aðrir flokkar koma og fara; skipta um nafn og kennitölu en Sjálfstæðisflokkkurinn stendur af sér stormana. Það er út af fyrir sig forvitnilegt að skoða það."

Guðjón Ólafur Jónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, segir athyglisvert að sjá hvernig sagan endurtaki sig aftur og aftur. "Slagorðin eru kannski ekki þau sömu en áhersluatriðin er söm aftur og aftur." Hann sagði það einnig eftirtektarvert hve menn hafi verið "lagnir við alla tíða að gagnrýna andstæðingana".

Bláa höndin vekur athygli

Það sem vakti einna helst athygli á sýningunni meðal frambjóðenda stjórnarandstöðuflokkanna var áróðursmynd sjálfstæðismanna í Reykjavík frá árinu 1956. Á henni er teikning af blárri hönd og síðan segir: "Reykvíkingar sendum 5 sjálfstæðismenn á þing." Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagði það áhugavert að sjá bláu höndina "í allri sinni mynd," eins og Bryndís orðaði það. "Það vekur óneitanlega athygli að bláa höndin skuli vera til. Það trúðu því reyndar margir að hún væri til en það er áhugavert að sjá hana hér í allri sinni mynd og að hún skyldi hafa verið framleidd af sjálfstæðismönnum sjálfum," segir Bryndís og bætir því við að bláa höndin hafi á síðustu misserum orðið fræg sem einhvers konar ímynd valds Sjálfstæðisflokksins.

Eyjólfur Ármannsson, frambjóðandi Frjálslynda flokksins, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður og frambjóðandi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, taka í sama streng. Það vekur einnig athygli Eyjólfs að á sama tíma og auglýsingin með bláu höndinni var framleidd notuðu sjálfstæðismenn grænan lit í auglýsingu frá sér. "Það vekur athygli mína að sjá grænt X-D," segir Eyjólfur, "því grænt er litur Framsóknarflokksins. En þetta er kannski vísbending um það hvert sjálfstæðismenn halla sér."

Kolbrún segir eftirtektarvert að sjá hvernig kosningaáróður hefur þróast í gegnum tíðina. "Það er t.d. gaman að sjá hvernig menn hafa smám saman farið að nota ýmislegt sem grípur augað. Og svo er gaman að sjá þessa litlu hluti sem notaðir hafa verið eins og til dæmis G-vítamínið. Hugvitið og hugmyndauðgin hefur því verið mjög mikið í gegnum tíðina."

Sýningin stendur til 11. maí næstkomandi og er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10 til 20, föstudaga frá kl. 11 til 19 og um helgar frá 13 til 17. Aðgangur er ókeypis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: