Baksvið: Þingvallastjórnina þraut örendið

Geir og Ingibjörg Sólrún á Þingvöllum þar sem stefnuyfirlýsingin var …
Geir og Ingibjörg Sólrún á Þingvöllum þar sem stefnuyfirlýsingin var undirrituð. Sverrir Vilhelmsson

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stundum nefnd Þingvallastjórnin þar sem þar var stefnuyfirlýsing hennar undirrituð. Óhætt er að segja að fáar - ef nokkur - ríkisstjórn í lýðveldissögunni hafi  byrjað með eins gott bú, að minnsta kosti á yfirborðinu: Blómstrandi atvinnuilíf með öflugt fjármálalíf í farabroddi, útrás íslenskra fyrirtækja í algleymingi og stærri meirihluta þingheims en gerist og gengur. En á sama hátt má segja að eftir tiltölulega farsælt fyrsta ár í starfi hafi hún á öðru ári lent í meiri hremmingum og ólgusjó en gerist og gengur með víðtækari mótmælum almennings en nokkru sinni og í dag kom í ljós að mótlætið bar hana ofurliði.

Hér á eftir verður stiklað á stóru í sögu þessarar ríkisstjórnar eins og hún birtist í fréttum og myndskeiðum hér á mbl.is. 

13. maí 2007Ríkisstjórnin reyndist með of lítinn meirihluta

Ríkisstjórnin hélt velli í Alþingiskosningunum í gær. Þegar lokatölur bárust úr Norðvesturkjördæmi laust fyrir klukkan 9 í morgun lá fyrir, að Sjálfstæðisflokkur hafði fengið 36,6% og 25 þingmenn, bætt við sig þremur mönnum frá síðustu kosningum og Framsóknarflokkur 11,7% og 7 þingmenn, tapaði fimm. Við lestur lokatalna færðist eitt þingsæti frá Framsóknarflokki til Sjálfstæðisflokks.

Samfylking fékk 26,8% og 18 þingmenn, tapaði tveimur mönnum frá síðustu þingkosningum. Vinstrihreyfingin-grænt framboð fékk 14,3% og 9 þingmenn, bætti við sig fjórum mönnum, Frjálslyndi flokkurinn fékk 7,2% og 4 þingmenn, jafnmikið og árið 2003. Íslandshreyfingin fékk 3,3% atkvæða en engan þingmann kjörinn.

23. maí 2007 - Geir kynnti nýja ríkisstjórn fyrir forsetanum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands í morgun og gerði honum grein fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ólafur Ragnar sagði eftir fundinn með Geir, að stjórnarmyndunum hefði verið í samræmi við það verklag sem lagt var upp með, að viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar myndu ekki taka nema viku til 10 daga.

Þeir Ólafur Ragnar og Geir ræddust við í um hálfa klukkustund. Ólafur Ragnar sagði á eftir, að Geir hefði kynnt honum nýja ráðherra og farið yfir stefnuyfirlýsingu nýrrar stjórnar.

Ríkisráðsfundur verður á Bessastöðum fyrir hádegi á morgun þar sem gamla ríkisstjórnin kveður og síðan mun nýtt ráðuneyti Geirs taka við.

Alþingi kallað saman í næstu viku

Áformað er að kalla Alþingi saman í næstu viku, að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Ríkisstjórnin áformar að leggja þar fram þrjú mál sem fjalla um málefni aldraðra, aðgerðaáætlun vegna barna og breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands.

Fram kom hjá Geir, að gera þurfi lagabreytingar vegna breyttrar skipunar ráðuneyta. Breyta þarf lögum um heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti og lögum um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin. Þá þarf að gera mögulegt að flytja starfsfólk milli ráðuneyta án sérstakra ráðstafana. Geir sagði að sumu væri þó hægt að breyta með reglugerðum.

Um aðskilnað heilbrigðis- og tryggingamála sagði Geir, að hugmyndin væri að málefni aldraðra og almannatryggingaþáttur lífeyriskerfisins flytjist yfir í félagsmálaráðuneytið en sjúkratryggingarnar, sem nú eru undir Tryggingastofnun, verði áfram hluti af heilbrigðisráðuneytinu. Þar undir væri hægt að búa til skipulag, sem myndi annast útboð eða kaup á þjónustu af þeim aðilum, sem hana gætu veitt. Þetta ætti þó eftir að útfæra nánar og einnig það að skipta Tryggingastofnun milli ráðuneyta.

Stefnuyfirlýsingin undirrituð á Þingvöllum

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, undirrituðu í dag stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar á Þingvöllum í dag. http://mbl.is/mm/frettir/kosningar/2007/05/23/stefnuyfirlysing_nyrrar_rikisstjornar_undirritud_a_/

14. júní 2007 - Fagnar framboði Íslands til Öryggisráðsins 

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns sagði eftir fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í morgun að hann sæi ekki nein vandamál framundan í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Varðandi framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna sagði Burns að Bandaríkin gæfu aldrei upp hvaða lönd þau kjósa í öryggisráðið en tók jafnframt fram að Bandaríkin fagni því að Ísland skuli bjóða sig fram og að það sé jákvæð þróun að lýðræðisríki á borð við Ísland skuli vilja sitja í öryggisráðinu, því það geti ekki leitt til annars en að auka styrk Sameinuðu Þjóðanna. http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/06/14/nicholas_burns_fagnar_frambodi_islands/

6. júlí 2007 - Þorskkvótinn 130 þúsund tonn

Í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar verður þorskafli næsta fiskveiðiárs skorinn niður um 63 þúsund tonn eða úr 193 þúsund tonnum í 130 þúsund tonn. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Einnig hefur verið ákveðið að á fiskveiðiárinu 2008-2009 miðist leyfilegur þorskafli við 20% afla úr viðmiðunarstofni þó þannig að tekið verði tillit til sveiflujöfnunar samkvæmt aflareglu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Leyfilegur heildarafli í þorski verði þó ekki undir 130 þús. tonnum á því fiskveiðiári, að sögn sjávarútvegsráðherra, Einars Kristins Guðfinnssonar.

Bæði skammtíma og langtímaaðgerðir vegna skerðingar kvóta

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra kynntu á blaðamannafundi í dag aðgerðir vegna skerðingar á aflamarki í þeim byggðalögum sem verst fara út úr skerðingunni. Er bæði um skammtíma- og langtímaaðgerðir að ræða.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að gripið verði til sérstakra aðgerða til að styrkja atvinnulíf á þeim svæðum sem verst verða fyrir barðinu á aflasamdrætti þar sem horfur eru hvað dekkstar. Aðgerðirnar eru í megindráttum þríþættar og munu koma skipulega til framkvæmda á næstunni.

„Miklar breytingar hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Aukin hagræðing og samþjöppun í greininni hefur leitt til aukinnar framleiðni og fækkunar fyrirtækja og starfsfólks. Samhliða þessu hefur annað atvinnulíf í landinu tekið stórfelldum breytingum og hér vaxið upp á skömmum tíma nýjar og öflugar atvinnugreinar svo sem fjármálaþjónusta og hátæknigreinar á fjölmörgum sviðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Mikil vöxtur þessara nýju greina hefur skapað mikla eftirspurn eftir vinnuafli, einkum velmenntuðum sérfræðingum víðs vegar að af landinu.

Þessar aðstæður hafa skapað erfiðleika í ýmsum byggðalögum, einkum þar sem sjávarútvegur hefur verið uppistaðan í atvinnulífinu. Vestfirðir eru glöggt dæmi um þessa þróun en sambærilegur vandi er víðar til staðar. Sá mikli samdráttur í aflaheimildum á þorski sem í dag hefur verið ákveðinn eykur enn á þennan vanda," samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem horfa einkum til þess að draga úr fyrstu áhrifum þeirrar tekjuskerðingar sem verður í kjölfar minnkunar þorskkvótans, jafnt hjá einstökum sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Í öðru lagi eru aðgerðir sem horfa til lengri tíma og miða að því að byggja samfélögin við sjávarsíðuna upp og stuðla að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi. Hér má nefna úrbætur í samgöngumálum, jafnt vega- sem fjarskiptamálum. Ennfremur aðgerðir sem miða að eflingu mennta- og menningarmála, meðal annars með aukinni áherslu á endurmenntun og starfsþjálfun. Einnig má nefna aðgerðir sem miða að því að efla nýsköpun. Loks verður lögð aukin áhersla á flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar.

Í þriðja lagi eru tillögur um eflingu hafrannsókna og endurskoðun á ýmsum þáttum er lúta að stjórn fiskveiða.

7. október 2007 - Varnarmál Íslands í deiglu

Utanríkisráðherra Íslands Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ávarpaði í gær þátttakendur á fundi þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Reykjavík og svaraði síðan fyrirspurnum. Hún sagði það táknrænt að samtökin funduðu nú í fyrsta sinn hér á landi þegar hafinn væri nýr þáttur í sögu varnarmála landsmanna. Þau væru nú í deiglu eftir brottför bandaríska herliðsins í fyrra en um leið færi fram umbreyting á bandalaginu sjálfu og áherslum þess.

Ráðherra sagði að aðildin að NATO hefði verið mikið deiluefni hér á landi í kalda stríðinu, ekki hefði ríkt hér sama eindrægnin varðandi varnarmál og í öðrum norrænum löndum. Við lok kalda stríðsins hefðu deilurnar minnkað en menn hefðu ekki notað tækifærið sem þá hefði gefist til að hugsa upp á nýtt stefnu landsmanna í öryggis- og varnarmálum. Brottför hersins hefði hins vegar gert mjög brýnt að hefja þá umræðu.

„Íslendingar munu taka á sig meiri ábyrgð og verða virkari í alþjóðamálum," sagði Ingibjörg Sólrún. „Með þetta í huga erum við að byggja upp nýtt samstarf með næstu grönnum okkar. Við munum verða virkari innan NATO. Og við erum að taka á okkur meiri skyldur innan Sameinuðu þjóðanna sem kemur fram í því að við gefum nú í fyrsta sinn kost á okkur til setu í öryggisráði SÞ."

20. desember 2007 - Þorsteinn Davíðsson skipaður héraðsdómari

Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, hefur í dag skipað Þorstein Davíðsson, aðstoðarsaksóknara og deildarstjóra við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, héraðsdómara frá og með 1. janúar 2008. Þorsteinn mun verða með 75% starfsskyldur við héraðsdóm Norðurlands eystra og 25% við héraðsdóm Austurlands og hafa starfsstöð við Héraðsdóm Norðurlands eystra.

Aðrir umsækjendur um embættið voru: Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, Pétur Dam Leifsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri og Ragnheiður Jónsdóttir, löglærður fulltrúi sýslumannsins á Húsavík.

Skipan dómar gagnrýnd

Bæði Eggert Óskarsson, formaður Dómarafélagsins, og Pétur Kr. Hafstein, formaður nefndar sem mat hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara, gagnrýndu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að Þorsteinn Davíðsson skyldi hafa verið skipaður héraðsdómari þótt þrír umsækjendur um embættið hefðu verið metnir hæfari en hann.

Í sama streng tók Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, í fréttum Sjónvarpsins. Hún situr í nefndinni en vék sæti í þessu máli. Árni M. Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra í málinu, sagðist hins vegar vera ósammála niðurstöðu nefndarinnar.

Fram kom að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem vék sæti í málinu, hefði ekki vikið sæti þegar skipað var í annað embætti héraðsdómara á síðasta ári þegar Þorsteinn var meðal umsækjenda.

Haft var eftir Birni í fréttum Sjónvarpsins, að ástæðan fyrir því að hann vék sæti nú hafi verið sú að hann gaf Þorsteini meðmæli eftir að hann hætti störfum sem aðstoðarmaður hans og þar með hefði hann tekið skýra afstöðu til hæfi hans og hæfni.

17. janúar 2008 - Mikilvægt að halda ró sinni

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði mikilvægt að allir haldi ró sinni við núverandi aðstæður í efnahagsmálum og umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og það ætti við um þingmenn, aðila vinnumarkaðar og aðila í fjármálaheiminum.

„Það eru nýjar aðstæður, það er erfitt um lánsfjáröflun miðað við það sem áður var og laust fé liggur ekki á lausu, ef svo mætti segja. Þess vegna var ákvörðun Seðlabankans fyrr í vikunni að breyta reglum um endurhverf verðbréfaviðskipti og auka veðhæfismöguleika skuldabréfa mjög mikilvæg og er áreiðanlega ein af stæðum þess að einn af stóru bönkunum okkar samkvæmt fréttum í morgun, hætti við að útvega sér stórt lán á alþjóðamörkuðum, að minnsta kosti í bili," sagði Geir.

Morgunblaðið sagði frá því í dag að Glitnir hefði hætt við  fyrirhugað skuldabréfaútboð.

Geir sagði að ný þjóðhagsspá undirstrikaði styrk íslenska hagkerfisins en leiddi jafnframt í ljós óvissu, sem nú væri, einkum vegna hræringa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

16. febrúar 2008 - Jón Ásgeir: Staðan verri en talið var

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs og stjórnarformaður FL Group, segist telja að bankarnir muni á næstu tólf mánuðum fækka starfsfólki verulega. Þetta segir hann í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 sem birtist á mánudag nk. Brot úr viðtalinu voru sýnd í þætti Markaðarins í gærkvöldi.

Jón segist telja stöðu bankakerfisins mun verri en almennt sé talað um. „Það þýðir ekkert að blekkja erlenda aðila sem sjá skuldaálag á bönkunum og skuldaálagið sem er á bönkunum í dag tekur mið af því að þeir séu hreinlega gjaldþrota,“ segir Jón og bætir því við að þetta sé nokkuð sem þurfi að hafa áhyggjur af og taka á. „Ég held að menn geti ekki stungið hausnum í sandinn og sagt að allt sé í lagi og það muni reddast. Þetta er stórhættulegt fyrir íslensku bankana,“ segir Jón.

Hann segir bankana eiga sér framtíð hér á landi verði Ísland aðili að Evrópusambandinu og því eigi það að vera langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar að skoða aðild alvarlega. „Mér finnst svolítið skrítið að ríkisstjórnin skuli segja að málið verði ekki skoðað. Það eru gjörbreyttar aðstæður á síðustu 6-8 mánuðum og enginn getur stungið hausnum í sand og sagst ætla ekki að skoða málin.“

Jón segist telja ákvörðun Seðlabankans um að breyta stýrivöxtum ekki vera ranga. „Það eykur hættuna á því að lækkunin verði skörp sem eykur hættuna á því að krónubréfin hverfi út úr kerfinu sem eykur hættuna á því að íslenska krónan veikist mjög hratt,“ segir Jón.

4. mars 2008 - Slæmt að stíga of fast á bremsurnar

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það hafi slæm áhrif á innlendum lánamarkaði þegar bankarnir þurfa að stíga snöggt á bremsurnar líkt og gerst hefur. Það sé að hægja á bæði vegna aðstæðna að utan sem og á Íslandi.

Geir segir að fjöldi manns geri sér enga grein fyrir því hvernig ástandið sé í efnahagsmálum á Íslandi. Vísaði hann til skýrslna sem unnar hafa verið um Ísland og hverju þær hafi skilað, því þegar menn væru upplýstir um stöðuna þá skilar það sér. 

Að sögn Geirs var ríkisstjórnin búin að ákveða heilmikla framkvæmdauppbyggingu sem nú verður farið í. Til að mynda samgönguumbætur. Síðan er spurning hvort eitthvað meira þurfi til. Til að mynda framkvæmd við nýtt álver sem getur skipt verulegu máli og blásið lífi í glæður sem hafa kólnað, sagði Geir í utandagskrárumræðum á Alþingi um efnahagsmál. 

13. mars 2008 - Björgvin mest áberandi

Ráðherrar mældust mjög mismunandi virkir sem viðmælendur í umfjöllun um þá eða þeirra ráðuneyti í ljósvakafréttum frá því ríkisstjórnin var mynduð í maí sl. til áramóta. Þetta kemur fram í úttekt Creditinfo Ísland á hve oft ráðherrar birtast sem viðmælendur í ljósvakafréttum. Mælingin kallast Ráðherrapúlsinn og eru niðurstöður birtar tvisvar á ári.

Á umræddu tímabili mældist Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra með mestu virknina í fréttum ljósvakamiðla en hann kom fram í yfir 50% ljósvakafrétta sem tengdust honum eða hans ráðuneyti. Fyrri hluta ársins í fyrra mældist hins vegar Geir H. Haarde forsætisráðherra með mestu virknina en hann mældist nú í næsta sæti með um 47% virkni sem viðmælandi. Í næstu sætum komu síðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Einar Kr. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra. Í fyrstu sex sætin raðast því fjórir ráðherrar úr röðum Samfylkingarinnar en tveir ráðherrar úr flokki sjálfstæðismanna.

Fram kemur í umfjöllun um mælingarnar að Einar Kr. Guðfinnsson hefur frá upphafi síns ráðherraferils mælst í 1. til 2. sæti meðal virkustu ráðherra sem viðmælandi í fréttum en hann fellur nú í 4. sæti. Þá hefur umhverfisráðherra ávallt mælst með neðstu sætunum þar til nú þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir mælist í 6. sæti.

18. mars 2008 - Engar aðgerðir vegna gengisfalls krónunnar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund, að ástæður gengisfalls krónunnar það sem af er vikunni megi rekja til vandræða sem bandaríski fjárfestingarbankinn Bear Stearns lenti í um helgina. Ríkisstjórnin áformi ekki að grípa til sérstakra aðgerða nú.  

Geir tók fram, að menn hefðu lengi talið að gengi krónunnar væri of hátt og búast mætti við lækkun. Lækkunin nú væri hins vegar nokkuð snörp og það ætti eftir að koma í ljós hvort um væri að ræða svonefnt yfirskot.

Þegar Geir var spurður, hvort hann teldi, að Seðlabankinn ætti að grípa til aðgerða vegna gengisþróunarinnar vildi hann ekki tjá sig um það.  

8. maí 2008 - Fín samskipti við Seðlabankann 

Samskipti Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar eru, og hafa undanfarið verið, með eðlilegum og hefðbundnum hætti, að því er fram kom í svari Geirs H. Haarde forsætisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær. Steingrímur vildi vita hvernig samskiptum ráðherra við Seðlabankann hefði verið háttað og hvort það væri rétt að ríkisstjórnin hefði fyrir nokkrum mánuðum hafnað beiðni frá Seðlabankanum um að auka gjaldeyrisvaraforðann.

Geir þótti fyrirspurn Steingríms byggjast á kjaftasögum. Samskiptin væru í föstum skorðum með reglubundnum fundum. „En vegna þeirra aðstæðna sem hafa verið hér að undanförnu, eins og allir þekkja, í hinum alþjóðlega fjármálaheimi, með þeim áhrifum sem það ástand hefur haft hér á landi þá hefur þetta samstarf verið enn meira og enn þéttara en oft áður,“ sagði Geir og bætti við að því fylgdu líka fleiri óformlegir fundir.

26. maí 2008 - Heimild til að taka 500 milljarða kr. lán 

Ríkissjóður fær heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán á þessu ári til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, samkvæmt frumvarpi, sem fjármálaráðherra leggur fram á Alþingi. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins að ekki væri ljóst hvort öll heimildin yrði nýtt, verði frumvarpið samþykkt.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafi um nokkurt skeið undirbúið aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisforðann og auka aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé. Sú stefna hafi verið mörkuð af hálfu stjórnvalda fyrri hluta árs 2006 að gjaldeyrisforðinn skyldi efldur.

Veigamikið skref í þá átt hafi verið stigið í árslok 2006 með lántöku ríkissjóðs að fjárhæð einn milljarður evra sem endurlánað var Seðlabankanum. Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem verið hafi á fjármálamörkuðum að undanförnu þyki rétt að haldið verði áfram á þessari braut.

Nýlega gerði Seðlabankinn tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem hver um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum. Erlend lántaka ríkissjóðs í því skyni að efla gjaldeyrisforðann enn frekar sé til athugunar. Jafnframt þyki æskilegt að svigrúm ríkissjóðs verði aukið til útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði ef þess er talin þörf í því skyni að efla innlent fjármálakerfi og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Mikil eftirspurn eftir skammtímabréfum að undanförnu hafi dregið nokkuð úr virkni peningastefnu Seðlabankans og haft óheppileg hliðaráhrif á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði.

30. maí 2008 - Allir samstíga í aðgerðum á jarðskjálftasvæðinu

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fóru yfir stöðuna og öfluðu upplýsinga með fulltrúum björgunarsveita, almannavarnanefnda og sveitarfélaga á skjálftasvæðinu á Suðurlandi. Þau sögðu alla vera samstiga í að hjálpa þeim sem hefðu orðið fyrir áföllum í náttúruhamförunum.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/30/samstiga_i_ad_veita_adstod/

17. júní 2008 - Forsætisráðherra bjartsýnn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gerði efnahagsástandið að umtalsefni í ávarpi sínu á Austurvelli. Sagði Geir að Íslendingar hafi árið 1969 tekist á við einhverja erfiðustu kreppu síðustu áratuga vegna aflabrests og verðhruns á erlendum mörkuðum.

Erfiðleikarnir þá voru mun meiri en nú. En með samstilltu átaki réð þjóðin við vandann og í hönd fóru blómleg ár. „Ég er þess fullviss að svo verði einnig nú," sagði Geir.

Höfum góða von um að hræringar séu að ganga yfir

Ríkisstjórnin sem tók við fyrir ári síðan tók, að sögn Geirs, við góðu búi, meira að segja óvenjulega góðu búi.

„En skömmu eftir að hún var mynduð hófust miklar hræringar í efnahagslífi heimsins, sem við sjáum ekki enn fyrir endann á en höfum þó góða von um að séu að ganga yfir.

Erlendir fjármálamarkaðir hafa gengið í gegnum meiri sviptingar en um áratugaskeið og lánsfjárkreppa, sem af þeim hefur leitt, hvarvetna sagt til sín. Jafnvel virðulegustu og rótgrónustu fjármálastofnanir veraldar hafa lent í miklum erfiðleikum, tapað gríðarlegum fjármunum og sumar orðið gjaldþrota.

Eins og íslenskt efnahagslíf hefur þróast á síðustu árum, orðið opnara, frjálsara og alþjóðlegra, var við því að búast að alþjóðlegar hræringar sem þessar segðu til sín hér sem annars staðar. Það er hinn nýi tími, sem ekki verður snúið frá," segir Geir.

13. júlí 2008 - Evruleið fremur en aðildarleið

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, veltir því upp í pistli á heimasíðu sinni hvort Íslendingar eigi að láta á það reyna tengjast Evrópusambandinu eftir evruleið fremur en aðildarleið.

Björn bendir á að Íslendingar hafi valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu.

„Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin,“ segir Björn.

 2. september 2008 - Forgangsverkefnið að tryggja fulla atvinnu

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að mikilvægt væri að allir sýni skilning á því ástandi, sem nú er vegna andstreymis í efnahagsmálum. Þá sagði hann að það væri forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar, að tryggja að hér verði eftir sem áður full atvinna fyrir vinnufúsar hendur.Hann sagði, að margt bendi til þess að frá og með haustinu gangi verðbólgan niður á nýjan leik, ef ekki verða óvænt áföll. Við þær aðstæður gætu vextir lækkað hratt og fyrirtækin í landinu á ný ráðið fleira fólk til starfa.

Þá sagði Geir, að ríkisstjórnin muni leita samráðs og hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og fleiri til að ná sem bestri samstöðu í baráttunni gegn verðbólgunni. „Full ástæða er til að hvetja heimilin í landinu til að sýna aðhaldssemi og það rétt er að halda því til haga að í verðbólgu er fátt skynsamlegra en að borga niður skuldir og leggja fé til hliðar," sagði Geir.

Hann sagði, að þótt þrenginga hafi orðið vart á vinnumarkaði upp á síðkastið mætti það ekki gleymast, að langflestir Íslendingar geti gengið að fullri atvinnu með vissu.„Verið vissir um að atvinnuleysi verður hrundið með því að auka verðmætasköpun í landinu. Við munum aldrei sætta okkur við skerta möguleika fólks til að framfleyta fjölskyldum sínum og það er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja að hér verði eftir sem áður full atvinna fyrir vinnufúsar hendur," sagði Geir.

Hann bætti við, að það væri brýnt verkefni að auka verðmætasköpun í landinu með aukinni framleiðslugetu. „Við verðum að nýta það sem okkur sem þjóð er gefið. Ekkert verður til úr engu. Allir þjóðir heims kappkosta að nýta auðlindir sínar á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt. Við getum ekki verið undantekning þar á. Það eru breyttir tímar í heiminum og við erum svo lánsöm að eiga dýrmætar orkuauðlindir. Með aukinni tækni og þekkingu ber okkur að nýta þær auðlindir á 6
arðbæran hátt en jafnframt umhverfislega ábyrgan og sjálfbæran hátt. Besta leiðin til að vinna okkur út úr tímabundnum erfiðleikum er að framleiða, framleiða og aftur framleiða.“

29. september - Ingibjörg Sólrún gekkst undir aðgerð 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra gekkst undir aðgerð á Mount Sinai sjúkrahúsinu í New York í dag.  Aðgerðin var gerð vegna veikinda sem upp komu fyrir réttri viku og rekja má til meins í fjórða heilavökvahólfi. Utanríkisráðherra heilsast vel að lokinni aðgerð.

Ákvörðun um að aðgerðin yrði gerð í dag þar ytra, var tekin í kjölfar rannsókna sl. föstudag og að höfðu samráði sérfræðinga á Landspítalanum og lækna á Mount Sinai sjúkrahúsinu, segir jafnframt í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.    

Enn liggur ekki fyrir  hversu lengi Ingibjörg Sólrún verður frá vinnu vegna veikindanna. 

30. september - Yfirtaka Glitnis: Hluthafar tapa um  200 milljörðum

Eign hluthafa Glitnis í bankanum hefur rýrnað um 88% miðað við kaupgengi ríkisins á sínum hlut í bankanum. Ríkið setur inn í bankann nýtt hlutafé að verðmæti um 85 milljarða króna og fær fyrir það 75% hlut í Glitni. Þýðir þetta að kaupgengið er 1,91, en á föstudag var gengi hlutabréfa Glitnis 15,7. Markaðsvirði Glitnis fyrir inngrip ríkisins var 233,6 milljarðar króna, en er eftir inngripin 112 milljarðar, sem þýðir að markaðsvirði hlutafjár annarra hluthafa en ríkisins er nú um 28 milljarðar króna. Er þá miðað við áðurnefnt kaupgengi ríkisins.

Tuttugu stærstu hluthafar Glitnis eiga nú 17% í bankanum, en áttu fyrir tæp 69%. Markaðsvirði eignarinnar hefur rýrnað um 142 milljarða króna og er nú 19,4 milljarðar.

Virðisrýrnun eldri hluthafa er þvíþætt. Annars vegar þynnist hlutur þeirra um 75% eftir aðkomu ríkisins og hins vegar verður að horfa til þess að ríkið fær sinn hlut á gengi sem er töluvert undir markaðsgengi á föstudag og hefur það augljóslega áhrif á verðmæti eignar annarra hluthafa.

30. september - Skrifaði ekki undir yfirlýsinguna

Stjórnarmaður í Stoðum segir að ekki séu allir stjórnarmenn sáttir við yfirlýsingu þá sem stjórn félagsins sendi frá sér í gærkvöld, að sögn fréttastofu Ríkisútvarpsins í morgun. Í yfirlýsingunni var farið hörðum orðum um yfirtöku ríkisins á Glitni. Að sögn fréttastofunnar kvaðst stjórnarmaðurinn ekki hafa skrifað undir yfirlýsinguna sem skrifuð var í nafni stjórnarinnar og þar með hans.

Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Það er mat stjórnar Stoða að Seðlabankinn hafi haft aðra og farsælli kosti í stöðunni en að taka Glitni yfir. Harkalegt inngrip Seðlabankans er ekkert annað en eignaupptaka þar sem hluthafar Glitnis tapa vel á annað hundrað milljörðum króna. Seðlabankinn og ríkisstjórnin stilltu stjórn og stærstu eigendum Glitnis upp við vegg í skjóli nætur og þeir áttu því enga kosti aðra en að samþykkja tillöguna. Atburðarásin var með þeim hætti að ekkert tóm gafst til að leita annarra lausna, frekar en að meta heildaráhrif aðgerðanna á íslenskt fjármálalíf. Stjórn Stoða harmar þessar aðgerðir og lýsir fullri ábyrgð á afleiðingum þeirra á hendur bankastjórnar Seðlabankans."

Í stjórn Stoða sitja Ingibjörg Pálmadóttir, sem er stjórnarformaður, Eiríkur Jóhannesson, sem er varaformaður stjórnar, og Árni Hauksson, Katrín Pétursdóttir og Þorsteinn M. Jónsson.  Einar Þór Sverrisson og Þórður Bogason eru varamenn í stjórninni.

2. október - Var ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum Sjónvarpsins, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefði ekki verið að viðra hugmynd um þjóðstjórn á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Sagði Geir að það væri einhver misskilningur sem hefði komist á kreik.

„En auðvitað er það ekki hans mál, það er mál stjórnmálaflokkanna. En ég tel ekki að hann hafi verið að seilast þangað inn með því sem hann kann að hafa látið út úr sér," sagði Geir.

Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Guðni Ágústsson hvöttu til þess í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að komið yrði á samráðsvettvangi stjórnmálamanna, atvinnulífs og fjármálastofnana, helst á morgun til að berjast við þann vanda sem nú er við að etja.

Geir sagði um það, að sér hefði þótt ágætur tónn heilt yfir í máli stjórnarandstæðinga í umræðunni og það væri jákvætt að þeir lýsi sig fúsa til samstarfs. En ábyrgðin á landsstjórninni væri hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin muni leita til þeirra eftir atvikum. „En ég tel ekki hyggilegt að efna til vettvangs með fulltrúum allra flokka auk allra annarra án þess að það sé betur undirbúið," sagði Geir. 

6. október - Neyðarlög sett

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsávarpi, að staða íslensku bankanna væri mjög alvarleg og hefði versnað til muna í morgun. Geir mun mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um mjög víðtækar heimildir til Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í fjármálastarfsemi og endurskipuleggja hana.

Geir vísaði til þess í ávarpi sínu að nokkrir af stærstu fjárfestingabönkum heims hafa orðið kreppunni að bráð og lausafé á mörkuðum í raun og veru þurrkast upp. Þetta hefur haft þau áhrif að stórir alþjóðlegir bankar hafa kippt að sér höndum við fjármögnun annarra banka og algjört vantraust hefur skapast í viðskiptum banka á milli. Af þessum völdum hefur staða íslensku bankanna versnað mjög hratt á allra síðustu dögum.

Geir sagði að í gærkvöldi hefði verið útlit fyrir að bankarnir gætu fleytt sér áfram. Þessi staða hefði gerbreyst til hins verra í dag og stórar lánalínur hefðu lokast. Nú reyni á ábyrg og fumlaus viðbrögð. „Ég mun nú á eftir mæla fyrir frumvarpi á Alþingi sem mun gera ríkissjóði kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum. Ég hef rætt við forystu stjórnarandstöðunnar í dag og fengið góð orð um að frumvarpið verði afgreitt í dag."

Hann sagði að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu unnið baki brotnu að lausn og allt kapp hefði verið lagt á að íslensku bankarnir seldu eignir sínar svo íslenska ríkið hafi bolmagn til að styðja við bakið á þeim.

Hins vegar fælist mikil áhætta í því fyrir þjóðina alla, að tryggja bönkunum líflínu. Sú hætta væri raunveruleg, að íslenska þjóðarbúið myndi sogast með bönkunum inn í brimrótið og úr yrði þjóðargjaldþrot. „Engin ábyrg ríkisstjórn teflir í slíka tvísýnu þótt bankakerfið eigi í hlut. Íslenska þjóðin og hagsmunir hennar ganga framar öllum öðrum hagsmunum," sagði Geir. 

 Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki, sagði Geir. „Til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt. Á hinum pólitíska vettvangi, jafnt sem annars staðar, er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður.“

7. október 2008 - Stofna nýja banka

Stjórnvöld gera sér fulla grein fyrir því að þegar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins eru komnar til framkvæmda í íslenskum fjármálastofnunum mun lánstraust Íslendinga skaðast. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins taldi ríkisstjórnin þó að fórna yrði minni hagsmunum fyrir meiri, þ.e. hagsmuni alls almennings. Nýir bankar um innlenda starfsemi munu að líkindum líta dagsins ljós í vikunni og fullyrt er einnig að lánstraust ríkissjóðs muni ekki bíða skaða af, jafnvel batna.

Ekki liggur fyrir hversu miklum fjármunum erlendir lánardrottnar tapa á því ef innlendir bankar greiða ekki upp lán sín að hluta eða öllu leyti.

Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að Seðlabankinn hafi metið það þannig að eini bankinn sem ætti raunhæfa möguleika á að komast í gegnum þrengingarnar sé Kaupþing. Því hafi verið ákveðið að veita Kaupþingi 500 milljarða króna erlent brúarlán gegn því að bankinn setti öll hlutabréf sín í danska bankanum FIH að veði, en hann er talinn mun meira virði en svo.

Fylgst með Íslandi erlendis

Fréttamenn frá tugum erlendra fjölmiðla eru nú staddir hér á landi vegna fjármálakreppunnar sem fer um heiminn. Erlendu miðlarnir telja áhugavert að fylgjast með því hvernig litlu hagkerfi og lítilli mynt reiðir af í efnahagsfárviðrinu.

Ríkisstjórnin hafði sérstakan viðbúnað vegna komu fjölmiðlanna. Utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið unnu saman og settu upp sér-símanúmer til að sinna óskum erlendu fréttamiðlanna. Mikið er fjallað um íslensku kreppuna í fjölmiðlum um allan heim upp á síðkastið og ólíklegt að það breytist í bráð. „Hinn mikli áhugi fjölmiðla á íslenskum efnahagsmálum endurspeglar í raun stöðuna eins og hún er um víða veröld. Ísland er dæmi um það sem er að gerast,“ sagði Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sem ásamt Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, sinntu erlendum fjölmiðlum í þinghúsinu. Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt í gærkvöld fréttamannafund á ensku í þinghúsinu eftir að hafa rætt við íslenska fjölmiðla.

8. október - Rætt við Breta um Icesave

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Iðnó í dag, að ýmis samtöl hefðu átt sér stað í dag milli breskra og íslenskra embættismanna og einnig ráðherra um þá stöðu, sem komin er upp vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi.„Okkur finnst mjög mikilvægt að þessi mál fari í þann farveg að unnið sé að þeim á vegum stjórnvalda beggja landanna en ekki sé um að ræða frekari yfirlýsingar eða skeytasendingar á milli ráðamanna landanna," sagði Geir.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði að samið yrði við Breta um þetta mál og enginn væri að hlaupa frá einu né neinu. Ríkisstjórnin hefði ítrekað í yfirlýsingu í dag, að hún muni styðja við Tryggingasjóð innlána og allt benti til þess að Landsbankinn muni eiga að mestu fyrir langstærstum innistæðum á reikningunum. Það sem eftir stæði yrði samið um milli þessara vinaþjóða.

„Það skall á okkur mikil umræða um stöðu innlánsreikninganna í Bretlandi og efasemdir sem breskir ráðamenn höfðu um að Íslendingar ætluðu ekki að standa við sínar skuldbindingar og það féllu hörð orð um það... Ég held að við höfum eytt miklum efasemdum um það mál," sagði Björgvin.

9. október 2008 - Útibú Kaupþings opin

Útibú Kaupþings, þjónustuver, hraðbankar og netbankar eru opnir í dag en eins og fram hefur komið tilkynnti Fjármálaeftirlitið í nótt að það hefði tekið yfir rekstur Kaupþings. Efirfarandi aðilar hafa verið skipaðir í skilanefnd Kaupþings: Finnur Sveinbjörnsson, hagfræðingur. Knútur Þórhallsson, löggiltur endurskoðandi. Bjarki H. Diego, hrl. Guðný Arna Sveinsdóttir, viðskiptafræðingur og Steinar Þór Guðgeirsson, hrl.

Segir í tilkynningu FME þetta er gert til að tryggja fullnægjandi innanlandsstarfsemi bankans og stöðugleika íslensks fjármálakerfis.

 Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu. Útibú bankans á Íslandi, þjónustuver, hraðbankar og netbankar eru opnir. Stefnt er að því að viðskiptavinir bankans finni sem minnst fyrir breytingum.

Það er mat Fjármálaeftirlitsins að þessi aðgerð sé nauðsynlegt fyrsta skref til þess að ná markmiðum nýsettra laga og til að tryggja eðlilega bankastarfsemi innanlands og öryggi innstæðna á Íslandi.

11. október 2007 - Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslands

 Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var harðorður í garð breskra stjórnvalda á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Sagði hann að bresk stjórnvöld hefðu með valdníðslu knésett stærsta fyrirtæki Íslendinga í vikunni og Ísland hljóti að skoða það í fullri alvöru að leita réttar síns vegna þessa.

Geir sagði að framganga Breta í vikunni hefði verið fullkomlega óforsvaranleg þótt eðlilegt sé að ríki reyni að verja hagsmuni sína.

„Ég ætla ekki að reyna að leyna undrun minni og vonbrigðum þegar í ljós kom að breska ríkið hefði beitt lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn íslenskum fyrirtækjum þar í landi. Reyndar lögum, sem voru mjög umdeild þegar þau voru sett vegna þess að menn óttuðust að gripið yrði til þeirra af öðru tilefni en til varnar hryðjuverkum. Má vera, að nú hafi komið í ljós, að nokkuð var til í þeirri gagnrýni.

17. október - Ísland náði ekki kjöri í öryggisráðið

Ísland náði ekki kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna af hálfu Vestur-Evrópu heldur voru Austurríki og Tyrkland kosin. Alls greiddu 192 þjóðir atkvæði á allsherjarþingi SÞ og þurfti 128 atkvæði til að ná kjöri í fyrstu umferð. Tyrkland fékk 151 atkvæði, Austurríki 133 og Ísland 87. Því þurfti ekki aðra umferð.Þá voru Úganda, Japan og Mexíkó kjörin í ráðið af hálfu Afríku, Suður-Ameríku og Kyrrahafsríkja. 

22. október - Sátt um IMF-lán í Seðlabanka

Bankastjórn Seðlabankans hefur fallist á að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum [IMF]. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var bankastjórn Seðlabankans klofin í afstöðu sinni til lántöku hjá IMF en er það ekki lengur. Ekki þurfti sérstakt samþykki Seðlabankans fyrir láni en ríkisstjórnin vildi vinna lántökuna í fullri sátt við bankastjórnina.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í gær að beðið væri eftir „þjóðhagsspá“ áður en hægt væri að ganga frá láni frá IMF. Vandi Seðlabankans leikur óvænt hlutverk í smíði umræddrar þjóðhagsspár. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær óskaði bankinn eftir frekari tryggingum frá fjármálafyrirtækjum vegna lána sem hann hefur veitt þeim. Seðlabankinn greindi ekki frá þessu fyrr en í upphafi vikunnar.

7. nóvermber 2007 - Jóhanna: Mun reyna á stjórnarsamstarfið

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segist telja að það eigi að láta á það reyna hvort núverandi ríkisstjórn nái að koma fram þeim aðgerðum sem byrjað er að vinna að í stað þess að fara í kosningar. Hún segir að það muni reyna mjög á þá flokka sem mynda ríkisstjórnina á næstunni, meðal annars við fjárlögin þar sem hækka þurfi skatta og fleira. Hvort þeir nái saman á þessum erfiðu tímum. „Ég tel að það sé mjög brýnt í þeirri stöðu að verja velferðarkerfið líkt og Finnar gerðu."

Jóhanna segir að þjóðin þurfi á því að halda að ríkisstjórnin standi saman og komist í gegnum það sem þurfi að gera. „En auðvitað gæti komið upp sú staða að við næðum ekki saman um ákveðnar aðgerðir og þá getur auðvitað allt gerst," sagði Jóhanna í viðtali á morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Jóhanna segir að séð verði til þess að nægir peningar verði til í atvinnuleysistryggingasjóð til þess að greiða út bætur. Hins vegar ef atvinnuleysi fer upp í 10% líkt og Seðlabankinn spáir í Peningamálum þá verði að grípa til ráðstafana.

Hún segir að eitt það ljótasta sem hún hafi séð frá því bankakreppan skall á sé sú mismunun sem komið hefur í ljós í meðal annars Kaupþingi þar sem skuldir starfsmanna voru þurrkaðar út. Það verði að koma í veg fyrir að slík mismunun eigi sér stað.

18. nóvember 2008 - Davíð á ábyrgð ríkisstjórnarforystunnar

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að það sé ábyrgðarhluti ef núverandi ríkisstjórn og forysta hennar ætli að sigla í gegnum kreppuna með bankastjórn Seðlabankans óbreytta. Seðlabankinn hafi brugðist sínu hlutverki.Hann segist aldrei hafa fengið viðvaranir frá Davíð Oddssyni um stöðu bankanna né minnist að komið hafi verið sérstök erindi ríkistjórnarfundi um það. 

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/18/david_a_abyrgd_forystu_rikisstjornar/

5. desember - Lánshæfi Íslands hrynur

„Þetta þýðir að ríkið eða Seðlabankinn eigi mjög erfitt með að koma bönkunum aftur til hjálpar,“ segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's lækkaði lánshæfiseinkunn ríkisins fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar um marga flokka í gær. Þar á meðal einkunn sem segir til um fjárhagslegan styrk stjórnvalda til að styðja við bankakerfið í kreppu og tryggja innlendar innistæður. Fór sú einkunn niður um fjóra flokka, úr Aaa í A1.

„Ég held að menn eigi ekki að hafa áhyggjur af þessu,“ segir Árni Mathiesen fjármálaráðherra. Ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að innistæður í íslenskum krónum væru tryggðar.

„Svona mikil lækkun veldur vonbrigðum í ljósi þess að stjórnvöld hafa í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ákveðið að taka á heildarvanda efnahagslífsins með skipulegum hætti,“ segir Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík.

9. desember 2008 - Mótmælendur eiga ekki að bíta

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði þegar hún gekk af ríkisstjórnarfundi í morgun að hver hefði sinn hátt á að mótmæla, sjálf myndi hún gera það með öðrum hætti. Ráðherrar ræddu niðurskurð í ríkisfjármálum á fundi sínum í morgun sem var haldinn við fremur óhefðbundnar aðstæður vegna  háværra mótmæla ungs fólks sem vill að ríkisstjórnin fari frá völdum.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, sem var sjálfur handtekinn á þingpöllunum fyrir mótmæli á námsárum sínum í háskólanum, segir atburðina í dag rifja upp gamlar minningar þegar hann hafi haldið ræðu á þingpöllum meðan 250 aðrir nemendur héldu lögreglunni í skefjum. Hann segir menn eiga rétt á að mótmæla, en þeir eigi ekki að bíta fólk eins og hafi gerst í gær.

Össur segir að ráðherrar séu nú tilbúnir að hlusta á mótmælendur sem og aðra. Ákveðin mistök hafi verið gerð við upplýsingagjöf til almennings eftir bankahrunið en það hafi aðallega verið vegna þess hversu verkefnið var stórt. Hann segist ekki vera þeirrar skoðunar að það eigi að ráðast í kosningar núna. Hann útiloki þó ekki neitt í þeim efnum fremur en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/12/09/motmaelendur_eiga_ekki_ad_bita/


15. desember 2008 - Orsökin liggur hjá ofurfrjálshyggjunni

„Við [Samfylkingin] orsökuðum ekki það hrun sem yfir okkur kom. {...} Stærsta orsökin liggur í þeirri ofsafrjálshyggju sem að hér réði ríkjum um langan tíma, ekki síst á síðasta kjörtímabili,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún ávarpaði kaffiboð 60+ á Grand Hótel í dag. Hún sagði að þrátt fyrir að erfiðir tímar væru framundan geti Íslendingar vel komist í gegnum þá sýni þeir þolgæði, æðruleysi og skynsemi.

Hún segir að vandinn teygi anga sína aftur til ársins 2001 þegar bankarnir voru einkavæddir án þess að þeim yrðu sett mörk og eignaraðildin dreifð. Hún benti á að ríkisstjórnin hafi einkavætt bankana með þeim afleiðingum að tiltölulega fáir aðilar eignuðust þá.

„Fjármálakerfið okkar stækkaði og óx í rauninni samfélaginu yfir höfuð,“ segir Ingibjörg og bætir við að þetta gerist á sama tíma og verið sé að höndla með íslenska krónu „sem er örmynt í samfélagi þjóðanna.“

Hún segir að eigendur og stjórnendur bankanna hafi farið of glannalega fram. Ábyrgðin sé fyrst og fremst þar.

5. janúar 2009 - Taugastríð Geirs og Ingibjargar

Eftir að Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins vakti máls á því að þjóðin fengi að kjósa um hvort farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið sló formaður Samfylkingarinnar því fram að jafngott væri þá að efna til alþingiskosninga í vor. Gunnar Helgi Kristinsson segir greinilegt taugastríð í gangi milli forystu flokkanna sem bendi til þess að stjórnarsamstarfið gangi ekki vel.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/05/taugastrid_geirs_og_ingibjargar/

21. janúar 2009 - Mótmælin halda áfram

Í allt gærkvöld dreif fólk að Alþingishúsinu þar sem mótmælum var haldið áfram til klukkan að ganga fjögur í nótt. Allt lauslegt brann glatt á heljarmiklu báli á gangstéttinni fyrir framan aðaldyrnar og púðurkerlingar sprungu.

Trymblarnir sem höfðu margir hverjir varla tekið sér hvíld allan daginn héldu áfram að slá taktinn og fólk kyrjaði, vanhæf ríkisstjórn.  Bak við skildi, ataða skyri, hímdi óeirðalögreglan.

Þingmenn VG blönduðu sér í hópinn utan við þinghúsið á ellefta tímanum og spjölluðu við mótmælendur. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG segist velta fyrir sér hvers konar jarðsamband ríkisstjórnin að ætla að sitja áfram og neita að boða til kosninga þrátt fyrir ólguna í þjóðfélaginu.

Jólatréð á Austurvelli fór á bálið um miðnætti og endaði þar sína ævidaga. Fyrr um kvöldið hafði ítrekað verið reynt að kveikja í trénu.

Mótmælin stóðu langt fram á nótt en eftir að leið á nóttina beitti lögreglan gasi til að tvístra hópnum og fjórir voru handteknir og færðir í fangageymslur. Mótmælendur boða frekari aðgerðir þegar Alþingi kemur saman eftir hádegið.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/21/motmaela_aftur_i_dag/

21. janúar 2009 - Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði

Þrátt fyrir að slagorð mótmælenda, „vanhæf ríkisstjórn“, hafi hljómað ótt og títt í eyrum stjórnarþingmanna hafa sjálfstæðismenn ekki hug á því að slíta stjórnarsamstarfinu. Vilji til þess er hins vegar mikill innan raða Samfylkingarinnar og hefur farið vaxandi síðustu tvo daga, eftir að mótmæli við Austurvöll og fyrir framan stjórnarráðið tóku að harðna. Það mátti heyra það á þingmönnum sem Morgunblaðið ræddi við í gærkvöldi að þau miklu mótmæli sem staðið hafa undanfarna tvo daga, hafa virkilega hreyft við þingmönnum. Þeir „skynja betur reiði fólks“, sagði einn stjórnarþingmanna.

Þunginn í mótmælunum náði hámarki um miðjan dag í gær þegar stór hópur fólks, um þúsund manns, safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið og mótmælti kröftuglega. Eftir að Geir H. Haarde forsætisráðherra settist upp í bíl sinn gerðu mótmælendur harða hríð að ráðherra, grýttu bíl hans og hrópuðu að honum. „Mér brá við þetta, og þetta var ekki skemmtileg reynsla,“ sagði Geir í samtali við blaðamenn í Valhöll um atvikið þegar fundur þingflokksins stóð yfir seinni partinn í gær.

Á þeim fundi ræddu þingmenn flokksins um stöðu landsmála, vaxandi ólgu meðal almennings og mál sem unnið er að á vegum ríkisstjórnarinnar vegna efnahagshrunsins. Geir hafði þá þegar rætt við Ingibjörgu Sólrúnu, formann Samfylkingarinnar, sem fullvissaði hann um að samstarfið væri ekki í hættu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lýstu þingmenn Sjálfstæðisflokksins óánægju sinni með „ístöðuleysi“ þingmanna Samfylkingarinnar. Voru margir óánægðir með að ríkisstjórnarsamstarfinu væri ógnað á viðkvæmasta tíma fyrir stjórnvöld, þegar verið væri að reyna að bjarga fyrirtækjum frá gjaldþroti.

23. janúar 2009 - Geir greinist með krabbamein - kosið í maí

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins en hann greindist nýverið með illkynja æxli í vélinda. Sjálfstæðisflokkurinn vill að boðað verði til kosninga þann 9. maí næstkomandi. Landsfundi flokksins verður frestað þar til í lok mars.

26. janúar 2009 - Ríkisstjórnin fallin

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16 og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Geir skýrði frá því í Alþingishúsinu eftir fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að ákveðið hefði verið að slíta stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.

Ný ríkisstjórn á Bessastöðum.
Ný ríkisstjórn á Bessastöðum. mbl.is/Brynjar Gauti
Ingibjörg Sólrún og Geir kynn lausn í Icesave-deilunni.
Ingibjörg Sólrún og Geir kynn lausn í Icesave-deilunni. Kristinn Ingvarsson
Ingibjörg Sólrún kemur af þingflokksfundi.
Ingibjörg Sólrún kemur af þingflokksfundi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Geir H. Haarde og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í …
Geir H. Haarde og Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Rax
Geir H. Haarde skýrir frá veikindum sínum.
Geir H. Haarde skýrir frá veikindum sínum. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina