Rafmögnuð stemmning á Alþingi

Þingflokksfundur Samfylkingarinnar stendur nú yfir í Alþingishúsinu.
Þingflokksfundur Samfylkingarinnar stendur nú yfir í Alþingishúsinu. mbl.is/Golli

Stemmningin í Alþingishúsinu er rafmögnuð en þar fara nú fram þingflokkfundir bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Fjöldi fjölmiðlafólks er í húsinu og fyrir utan hafa nokkrir mótmælendur safnast saman.

Síðustu daga hafa verið haldnir margir bæði formlegir og óformlegir fundir. Engar formlegar viðræður eru í gangi milli stjórnarandstöðuflokkanna og Samfylkingar um framhaldið en forystumenn hafa þó hist og rætt framhaldið sín í milli. Tilboð VG um þjóðstjórn stendur enn og að sama skapi tilboð Framsóknar um að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar falli. Fulltrúar þessara flokka hafna þó alfarið að nokkurt samkomulag hafi náðst heldur hafa óformlegar viðræður aðeins farið fram og án allra skuldbindinga. Samfylkingin sé enn í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Ef mynduð yrði þjóðstjórn ætti Sjálfstæðisflokkurinn aðild að henni. Samfylkingin og VG gætu að öðrum kosti skipt á milli sín ráðherrastólum og hugsanlega fengju Framsókn og Frjálslyndir að fara með formennsku ákveðinna nefnda þingsins.

Allir sem mbl.is hefur rætt við leggja hins vegar þunga áherslu á að hvernig sem fari þá verði ný ríkisstjórn að grípa til aðgerða og að kosningar þurfi að fara fram eins fljótt og unnt er.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræddi við blaðamenn fyrir þingflokksfund sjálfstæðismanna.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræddi við blaðamenn fyrir þingflokksfund sjálfstæðismanna. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina