Hörð gagnrýni á seðlabankafrumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í ræðustóli Alþingis.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Kristinn

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt harðlega frumvarp, sem forsætisráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag um breytingar á lögum um Seðlabankann. Birgir Ármannsson sagði m.a. að frumvarpið væri í raun uppsuða úr breytingartillögu, sem lögð hefði verið fram þegar lögum um Seðlabankann var breytt á Alþingi árið 2001.

Birgir lýsti efasemdum um að frumvarpið væri faglega unnið og talaði um handarbakavinnubrögð. Kallaði hann eftir upplýsingum um hvaða sérfræðingar hefðu unnið að málinu og hvaða upplýsingum hefði verið leitað erlendis frá til undirbúnings frumvarpinu.

Jóhanna fullyrti að vinna við frumvarpið hefði verið faglegt. Ekki hefði gefist mikill tími til að vinna málið en undirbúningurinn, miðað við þann tíma, hefði verið góður. Þá hefði farið fram samanburður við það fyrirkomulag, sem er í öðrum löndum. Jóhanna vildi ekki upplýsa hvaða sérfræðingar hefðu unnið að málinu.

Birgir sagði að sjálfstæðismenn væru reiðubúnir til að fara yfir málið í heild á þeim forsendum að það væri gert með málefnalegum hætti en ekki í óðagoti.  

Pétur Blöndal vitnaði í þingræðu, sem Jóhanna flutti árið 2001 þar sem hún lagði áherslu á sjálfstæði Seðlabankans. Spurði Pétur hvort það væri sjálfstæði Seðlabankans, að forsætisráðherra skrifi bankastjórum bréf og biðji þá að segja af sér.  Getur ráðherra sent opinberum embættismönnum bréf og hótað þeim lagasetningu ef þeir segja ekki af sér? spurði Pétur.

Jóhanna sagði það misskilning, að einhverjar hótanir hefðu verið í bréfinu. Fyrir hafi legið að ríkisstjórnin ætlaði að koma á endurskipulagningu á Seðlabankanum. Í bréfinu hefði komið fram ósk um að seðlabankastjórarnir veittu aðstoð við það. 

mbl.is