Tæp 46% vilja hvorugan frambjóðandann

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Tæplega 46% þeirra sem tóku þátt í könnun MMR þar sem spurt var um hvort fólk vildi heldur vilja sem formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu
Sólrúnu Gísladóttur eða Jón Baldvin Hannibalsson vill hvorugt þeirra í formannsembættið. Samtals voru 35,1% sem sögðust heldur vilja
Ingibjörgu Sólrúnu en 19% sögðust heldur vilja Jón Baldvin.

Ingibjörg Sólrún með yfirburði meðal kjósenda Samfylkingarinnar

Sé eingöngu litið til þeirra sem sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum kemur í ljós að 68,2% sögðust heldur vilja að Ingibjörg Sólrún gegndi formannsembættinu, 12,7% sögðust heldur vilja að Jón Baldvin yrði formaður og 19,1% sögðust vilja hvorugt þeirra.

Spurt var: „Kosningar um forystu Samfylkingarinnar fara fram á landsfundi flokksins dagana 27.-29. mars næstkomandi. Tveir aðilar hafa boðið sig fram til að gegna embætti formanns Samfylkingarinnar, þau Jón Baldvin Hannibalsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hvort þeirra myndir þú heldur vilja að yrði formaður Samfylkingarinnar?“ Samtals tóku 89,0% afstöðu til spurningarinnar.

Spurning um stuðning við flokka var eftirfarandi: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú líklegast kjósa? Samtals tóku 61% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust óákveðnir (22%), myndu skila auðu (11%), myndu ekki kjósa (2%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (3%), að því er segir í tilkynningu frá MMR.

Úrtakið í könnuninni eru einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr þjóðskrá og svaraði 891 einstaklingur en könnunin var gerð 3.-5. mars.

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina