Ríkisstjórnarflokkarnir fengju drjúgan meirihluta

mbl.is

Ríkisstjórnarflokkarnir fengju meirihluta á Alþingi ef kosið væri nú, skv. nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið - samtals 55,8% atkvæða og alls 38 þingmenn af 63. Samfylkingin er stærsti flokkur landsins, skv. könnuninni, með 31,2%, Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 26,5% og Vinstri hreyfingin - grænt framboð 24,6%.

Athygli vekur að Frjálslyndi kæmi ekki manni á þing miðað við þessa könnun og mælist með minnst fylgi allra framboða.

Samkvæmt skoðanakönnunni styðja nú 64,3% Íslendinga ríkisstjórn Samfylkingar og VG en 35,7% segjast ekki styðja hana. Þetta eru nánast sömu tölur og fengust í könnun Capacent Gallup í síðasta mánuði.

Stuðningur við flokkana (framboðin) skv. könnuninni er sem hér segir; prósentur og fjöldi þingmanna - í sviga prósentur í kosningunum 2007 og fjöldi þingmanna sem viðkomandi flokkur fékk þá kjörna á þing:

Samfylkingin 31,2% - 21 (28,3% - 18)

Sjálfstæðisflokkurinn 26,5% - 18 (36,6% - 25)

Vinstri hreyfingin - grænt framboð 24,6% - 17 (14,4% - 9)

Framsóknarflokkurinn 11,3% - 7 (11,7% - 7)

Borgarahreyfingin 2,5%

Listi Fullveldissinna 1,9%

Frjálslyndi flokkurinn 1,3% - 0 (7,3% - 4)

Könnunin varð gerð dagana 11. til 17. mars. Um er að ræða bæði netkönnun og símakönnun. Úrtakið í netkönnunni var tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá.

Heildarúrtaksstærð var 1.555 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 62,5%.

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

mbl.is