Fjórar kærur komnar í gær og von á fleiri

Fjórar kærur voru komnar inn á borð til umhverfisráðherra í gær vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu en kærufrestur rann þá út. Von var á fleiri kærum sem póstlagðar höfðu verið í gær.

Umhverfisráðherra hefur nú átta vikur til að fella sinn úrskurð en sem kunnugt er hefur Siv Friðleifsdóttir lýst sig vanhæfa til þess vegna fyrri ummæla sinna um Þjórsárver. Úrskurðarvald verður væntanlega í höndum Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra sem framsóknarmenn hafa lagt til að verði settur umhverfisráðherra til að fjalla um málið. Það er forsætisráðherra sem skipar seturáðherra hverju sinni.

Í umhverfisráðuneytinu fékkst það staðfest síðdegis í gær að kærur hefðu borist frá Náttúruvernd ríkisins, Áhugahópi um verndun Þjórsárvera, Landvernd og Umhverfissamtökum Íslands og lögmaður Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði tilkynnt kæru, sem greint hefur verið frá í Morgunblaðinu. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var einnig von á kærum frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Fuglaverndarfélagi Íslands og jafnvel einhverjum einstaklingum. Endanlegur fjöldi kæra kemur í ljós í dag eða á morgun.

Landvernd sendi í gær tilkynningu um að samtökin ætluðu að kæra úrskurðinn. Í kærunni eru Þjórsárver sögð einstætt vistkerfi á heimsvísu og þar sé eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Bent er á að hluti Þjórsárvera njóti verndar sem friðland samkvæmt íslenskum lögum og séu alþjóðlegt verndarsvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum um verndun votlendis.

"Stjórn Landverndar tekur undir þau niðurstöðuorð Skipulagsstofnunar að ekki megi ganga á friðlýst svæði nema brýnir almannahagsmunir séu fyrir hendi. Að mati stjórnar Landverndar hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem benda til þess að Norðlingaölduveitur varði brýna almannahagsmuni," segir m.a. í kæru Landverndar.

Mætti eins leyfa virkjun Gullfoss

Umhverfisverndarsamtök Íslands leggja til að tillögum Landsvirkjunar um lón í 575 m y.s. verði hafnað og einnig tillögu Skipulagsstofnunar um lónshæð upp á 578 m y.s. Í kæru samtakanna, sem undirrituð er af formanni þeirra, Steingrími Hermannssyni, fv. forsætisráðherra segir að fyrir henni megi færa mörg og veigamikil rök. Meðal annars þau að niðurstaða skipulagsstjóra gangi þvert á allan rökstuðning Skipulagsstofnunar, hann sé byggður á mati á hagkvæmni sem samtökin telja ekki vera í verkahring skipulagsstjóra. "Með þeim rökum mætti eins leyfa til dæmis virkjun Gullfoss og Dettifoss. Vekja má athygli á því að aðgengilegir eru ýmsir aðrir hagkvæmir kostir, til dæmis Skaftárveita og jarðhiti víða um land," segir í kærunni. Umhverfisverndarsamtök Íslands telja að verði Norðlingaölduveita leyfð, muni það verka sem reiðarslag.

Áhugahópur um verndun Þjórsárvera krefst þess að úrskurði Skipulagsstofnunar verði hnekkt og hann felldur úr gildi. Fyrir kröfu hópsins eru lögð fram þrenn rök. Í fyrsta lagi er bent á ósamræmi milli umfjöllunar og niðurstöðu Skipulagsstofnunar, þ.e. að framkvæmdirnar valdi umtalsverðum og óafturkræfum áhrifum á fjölmarga náttúruþætti, t.d. gróðurfar, fuglalíf, landslag og vatnafar, en séu samt heimilaðar. Í öðru lagi er bent á að lón í 578 m y.s. hafi ekki verið lagt fram sem kostur til umhverfismats, því hafi almenningur ekki getað kynnt sér þá framkvæmd og gert athugasemdir. Í þriðja lagi telur hópurinn að boðaðar mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar hafi ekki verið metnar og kynntar nægilega í matsskýrslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert