Bruce kemur vonandi síðar

Bruce Springsteen syngur vonandi síðar fyrir Íslendinga.
Bruce Springsteen syngur vonandi síðar fyrir Íslendinga. AP

Ekkert verður af tónleikum bandaríska rokkarans Bruce Springsteen á Nasa í kvöld, eins og skýrt var frá í Morgunblaðinu og mbl.is í morgun. Fréttin var birt í tilefni dagsins, en í dag er 1. apríl. Margir skráðu sig á Fólkvef mbl.is í von um að fá miða á tónleikana, og eru þeir beðnir velvirðingar á tiltækinu.

Fleiri íslenskir fjölmiðlar slógu á létta strengi í dag og birtu fréttir sem margir hafa sjálfsagt tekið með varúð. Fréttablaðið sagði að Skjár einn hefði náð réttinum á að halda Stjörnuleit hér á landi og að Simon Cowell, Idoldómari, væri kominn hingað til lands til að hlýða á íslensk ungmenni. DV vakti Elvis Presley upp af værum svefni á Life Forever stofnuninni í Sviss og sagði að hann myndi halda tónleika á Ölveri í kvöld.

Á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði birtist stórfrétt um að bæjarstjórnir Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar hefðu náð samkomulagi um að skiptast á bæjarstjórum. Því yrði Einar Pétursson, bæjarstjóri í Bolungarvík, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar frá og með deginum í dag og Halldór Halldórsson verði bæjarstjóri í Bolungarvík. Birt var mynd af bæjarstjórunum skiptast á lyklum.

Víkurfréttir birtu frétt á vef sínum um að nýgerðir kjarasamningar veittu Íslendingum ýmis ný fríðindi, svo sem rétt til að versla í verslunum í Varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli tvisvar á ári. Annar verslunardagurinn væri í dag en hinn í byrjun desember. Því yrðu verslanir Varnarliðsins opnar Íslendingum í dag frá því kl. 10 til 18 og þar væri hægt að kaupa tollfrjálsan varning.

Vefmiðillinn Horn.is skýrði frá því að til stæði að opna Burger King veitingastað í bænum og fréttavefurinn Húnahornið sagði frá því að skarð væri komið í brimvarnargarðinn við höfnina á Blönduósi og birti mynd af því.

Á fréttavef Knattspyrnusambands Íslands birtist einnig frétt um að leikmönnum í Landsbankadeildum karla og kvenna væri skylt að sækja um brúðkaupsleyfi til mótanefndar KSÍ, ef þeir hygðust gifta sig á meðan á keppnistímabili stendur. Ef ekki væri sótt um leyfi væri ekki hægt að tryggja að tekið verði fullt tillit til brúðkaupsins við niðurröðun leikja.

Í fréttatíma Ríkisútvarpsins var m.a. frétt um að sníkjudýrið blóðagða, sem getur valdið svonefndum sundmannakláða og fannst nýlega í Landmannalaugum, hefði borist í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og því yrði sett sérstakt efni í laugarvatnið á næstunni sem hefði þær óheppilegu aukaverkanir að fólk yrði blátt. Þá var haft eftir Sigurði Guðmundssyni, landlækni, að taki ögðurnar sér bólfestu í rakadrægum rúmfötum á heimilum sundlaugargesta, þá gildi hið sama og í laugunum, best sé að úða tæru og köldu vatni yfir rúmfötin.

Bæjarstjórar Bolungarvíkur og Ísafjarðar skiptast á lyklum.
Bæjarstjórar Bolungarvíkur og Ísafjarðar skiptast á lyklum.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson