Eiður og Crespo tryggðu Chelsea sigur gegn Middlesbrough

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrir lið sitt Chelsea á útivelli gegn Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni í dag. Eiður skoraði á 17. mínútu en Szilard Nemeth jafnaði fyrir heimamenn í fyrstu sókn liðsins í síðari hálfleik. Hernan Crespo kom inná sem varamaður í síðari hálfleik fyrir Jimmy Floyd Hasselbaink og þakkaði argentínski sóknarmaðurinn traustið með því að skora sigurmarkið á 88. mínútu.

Chelsea er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig líkt og Manchester United en Chelsea hefur leikið 7 leiki en Man. Utd. 8 leiki líkt og toppliðið Arsenal sem er með 20 stig. Middlesbrough er í 17. sæti með 7 stig en liðin þrjú þar fyrir neðan eru í fallsætum; Newcastle, Leicester og Wolves.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert