Fréttaskýring: Gúmmíkurl notað í dren á urðunarstað í Álfsnesi

Viðsnúningur varð á erlendum endurvinnslumörkuðum síðastliðið haust. Gjaldskrár breyttust þannig að meira þurfti að borga með ákveðnum tegundum eða minna fékkst fyrir það sem þó er greitt fyrir, auk þess sem flutningskostnaður hækkaði. Í kjölfar þessa hófust viðræður um nýtingu á gúmmíkurli hér innanlands og nú er útlit fyrir að samningar takist um að nýta mest af því gúmmíkurli sem til fellur hérlendis sem efni í dren eða afrás á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi.

Úrvinnslusjóður hefur greitt með útflutningi á gúmmíkurli og hefur sjóðurinn fylgst með viðræðum Sorpu og endurvinnslufyrirtækjanna, einkum Hringrásar og Efnamóttökunnar. Með þeirri leið sem nú er verið að semja um varðandi kurlið lækkar verðið, gjaldeyrir sparast, flutningar verða minni og efnið er nýtt innanlands í stað þess að kaupa t.d. drenmöl.

Ónýt dekk sem til falla eru að mestu kurluð niður og efnið hefur einkum verið flutt til Danmerkur og Bretlands, en einnig eru dekk brennd í sorpbrennslum, t.d. á Húsavík. Úrvinnslugjald er lagt á hjólbarða sem fluttir eru til landsins hvort sem þeir eru nýir eða sólaðir, stakir eða sem hluti af ökutækjum. Gjaldið er notað til að greiða fyrir meðhöndlun hjólbarða, förgun eða endurnýtingu, eftir að notkun á þeim lýkur.

„Það þarf að borga með hjólbörðum til endurvinnslu og gengið hefur bitið illilega í þeim efnum,“ segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs. „Með samningnum sem verið er að gera við Sorpu munum við greiða lægra gjald með hverju tonni heldur en áður,“ segir Ólafur.

Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segist reikna með að Sorpa nýti mestallt gúmmíkurl sem til fellur hér á landi, 4-5 þúsund tonn á ári. Fyrst og fremst verði það notað sem drenefni á urðunarstöðum, en einnig komi til greina að nota það til að búa til lag í haugum til að safna gasi.

Spurður hvort ekki fylgi mengun þessari notkun og hvort þessi nýting standist reglugerðir segir Björn að hann telji ekki hættu á mengun. Allt sigvatn hjá Sorpu fari í gegnum setþrær og vel sé fylgst með öllu frárennsli. Gerðar hafi verið tilraunir með kurlið fyrir nokkrum árum og það hafi hentað ágætlega til þess að nota sem drenefni. Samkvæmt áliti, sem Umhverfisstofnun gaf fyrir nokkrum árum séu ekki gerðar athugasemdir við þessa notkun.

„Gúmmíkurl er notað víða erlendis sem drenefni undir urðunarstaði til þess að leiða vatn,“ sagði Björn. „Það er leyfilegt að nýta kurlið á urðunarstað, þó bannað sé að urða það. Sömuleiðis banna Evrópureglur að dekk séu urðuð, en kurlið er að mestu unnið úr þeim.“

Haraldur Ólafsson í Furu tengist rekstri Efnamóttökunnar og segir að samhliða gengisfalli og bankahruni hafi kostnaður vegna gúmmíkurlsins aukist verulega. Fyrirtækið hafi ekkert flutt út af dekkjum eða kurli til endurvinnslu frá síðasta hausti.

Hann segist bjartsýnn á að samningar náist um að nýta efnið hér, en verið sé að ræða um verð, hversu mikið efni Sorpa tekur og í hvaða ástandi gúmmíinu verði skilað.

Plús varð að mínus

Verð á endurvinnsluafurðum erlendis hefur aðeins hækkað á síðustu vikum eftir dýfu síðastliðið haust. Í einhverjum tilvikum breyttist plús í mínus, það er að um tíma þurfti að borga fyrir efni sem áður fékkst greitt fyrir.

Málmar lækkuðu í verði, en enn er þó markaður fyrir brotamálma, að sögn Haraldar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Furu. Háveturinn sé rólegur tími í málmbræðslu enda sé raforka dýrari í Evrópu yfir vetrartímann.

Hann segir að sala á pappír og plasti hafi „alveg þverstoppað“, en sé aðeins farin af stað aftur í plastinu og ekki þurfi lengur að borga með því. Nýlega var haft eftir Sveini Hannessyni hjá Gámaþjónustunni að í sumar hefðu fengist um 100 evrur fyrir tonn af pappa, núna kannski tíu evrur fyrir sama magn.

Sorpa greiðir enn fyrir móttöku á umbúðum; sléttum pappa, bylgjupappa og filmuplasti ef komið er með nógu mikið magn. Timburkurl sem til fellur fer að mestu í gegnum Sorpu til brennslu sem kolefnisgjafi í ofnum Járnblendiverksmiðjunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert