Hrossagaukurinn flaggar til að sýna ást sína

Hrossagaukur á flugi.
Hrossagaukur á flugi. Brynjar Gauti

Þegar karlkyns hrossagaukur steypir sér og „hneggjar“, til að vekja aðdáun kvenfugla, blakta stélfjaðrir hans eins og fánar í vindinum og framkalla þannig hljóð. Vísindamenn við háskólann í Manchester hafa nú leitt í ljós með háhraðamyndavélum, nákvæmlega hvernig þetta gerist. Sagt er frá þessu í nýjasta hefti Journal of Experimental Biology.

„Það sem reyndist spennandi var það að fjöðurin sveiflast fram og til baka,“ segir Rolan Ennos, einn meðhöfundurinn, í samtali við fréttavef BBC. „Stélfjöðurin er sérstaklega aðlöguð, þannig að hún hegðar sér nákvæmlega eins og fáni sem blaktir í vindi. Ekki hefur verið sýnt fram á það áður," segir hann.

Ennos segir að áður hafi verið talið að fjaðrirnar væru sérstaklega stífar, og framkölluðu þess vegna hljóðið. Flestar stélfjaðrir séu mjög stífar, til að veita lyftikraft. Þessar slöku fjaðrir hrossagauksins valdi vindmótstöðu og hægi í raun á honum.

„Með því að fara eins hratt og hann getur og framkalla hávaða, er fuglinn því að sýna væntanlegum maka sínum fram á það hvað hann er í góðu formi,“ segir Ennos.

Myndband af hrossagauksfjöður, blaktandi í vindi, má sjá á vef BBC.

Á fræðsluvefnum Wikipedia segir að skömmu eftir aldamótin 1800 hafi komið upp deila á Íslandi um það hvernig hrossagaukurinn hneggjaði.

„Fram til þess tíma héldu menn að hneggið væri raddhljóð. En þá komu þýskir vísindamenn fram með þá kenningu að hrossagaukurinn hneggi með flugfjöðrunum. Þessari kenningu var síðan hrundið þegar færðar voru sönnur á að gaukurinn hneggjaði með stélfjöðrunum, þ.e. að loftstraumur lendi á milli stélfjaðra og þannig myndist hljóðið," segir á vefnum.

Vísindamennirnir við Manchesterháskóla eru því ekki þeir fyrstu til að velta vöngum yfir háttarlagi hrossagauksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert