Því er nú haldið fram að fyrirhugaðar hópárásir tölvuþrjóta um Netið á sunnudag séu orðum auknar, en upplýsingarnar komu fyrst fram eftir ónafngreindum heimildarmanni í ástralska dagblaðinu The Melbourne Age. Þar var því haldið fram að um fyrirhugaða keppni tölvuþrjóta væri að ræða. Einnig var nefnt að stig væru í húfi fyrir þá sem næðu mestum skaða á vefsvæðum. Ennfremur sagði að árásirnar ættu eftir að draga úr skilvirkni á Netinu.
Nú segir zdnet.co.uk að netöryggisfyrirtæki geri lítið úr fyrirhuguðum árásum og haldi því jafnvel fram að um hrekk sé að ræða. Netöryggisfyrirtækið TruSecure segir óheppilegt að fjölmörg netfyrirtæki og bandaríska heimavarnarráðuneytið hafi fallið fyrir brellunni og vakið meiri athygli á málinu en það ætti skilið.