Komust að því hvernig fólk fær lög „á heilann“

Lagið Satisfaction með Rolling Stones er grípandi samkvæmt rannsókninni.
Lagið Satisfaction með Rolling Stones er grípandi samkvæmt rannsókninni. AP

Vísindamenn kunna að hafa komist að því hvað gerir sum lög meira grípandi en önnur, og hvers vegna fólk fær lög á „heilann“ með því að finna út hvar í heilanum laglínan festist. Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu Nature og er sagt frá því á fréttavef BBC.

Bandarískir vísindamenn frá Dartmouth-háskólanum spiluðu hluta úr lögum fyrir sjálfboðaliða. Þeir notuðu heilaskanna til að fylgjast með starfsemi heilans á meðan og komust að því að hún var mest í þeim hluta heilabarkarins sem unnið er úr upplýsingum frá eyrum.

Eftir að kunnuglegir og grípandi lagabútar höfðu verið leiknir, hélt starfsemin áfram á svæðinu þrátt fyrir að búið væri að slökkva á tónlistinni. Sjálfboðaliðarnir sögðust ennfremur „heyra“ lögin í höfðinu á sér. Vísindamenn hafa áður haldið því fram að grípandi lög virki þannig að eins konar „kláði“ myndist í heilanum þegar hlustað er á þau og einungis sé hægt að „klóra sér“ með því að heyra lagið aftur.

Sjálfboðaliðarnir voru látnir hlusta á lagabúta úr bæði kunnuglegum og óþekktum lögum, m.a. Satisfaction með Rolling Stones og stefið úr Bleika pardusnum. Lögin voru í bútum og inn á milli var þögn. Vísindamennirnir notuðu heilaskanna til að sjá hvaða hlutar heilans voru virkir á meðan fólkið hlustaði á lögin.

Sjálfboðaliðarnir sögðust hafa heyrt lagið áfram í hléunum þegar um kunnuglegt lag var að ræða en ekki þegar þeir þekktu ekki lagið. Með heilaskannanum sást að starfsemin á ákveðnum svæðum heilans var meiri í þagnarhléunum þegar lagið var kunnuglegt en þegar um óþekkt lag var að ræða.

Þeir komust einnig að því að áhrifin á heilann voru mismunandi eftir því hvort sungið var á laginu eða ekki. Ef slökkt var á tónlistinni þegar ekkert var sungið, t.d. á stefinu úr Bleika pardusnum, virtist það hafa áhrif á mörg svæði heilabarkarins þar sem heyrn er skynjuð og vinna varð meira úr upplýsingunum til að fylla upp í þögnina.

Í lögum þar sem texti var sunginn var starfsemin hins vegar á færri svæðum og virtist ekki þurfa að vinna jafn mikið úr upplýsingunum. „Við teljum að fólk einbeiti sér þá að textunum til að muna,“ sagði David Kraemer, stjórnandi rannsóknarinnar.

Samstarfsmaður hans, dr. Bill Kelley, segir að niðurstöðurnar staðfesti að minningar sem byggjast á skynjun, t.d. sjón, hljóðum eða lykt séu geymdar í þeim svæðum heilans þar sem unnið sé úr upplýsingunum fyrst þegar þær eru skynjaðar.

„Þegar þú heyrir sérstakt lag sem veldur því að heyrnarsvæðin í heilanum taka að starfa, getur það leitt til þess að upp komi sjónrænar minningar líka. Til dæmis koma upp minningar af því þegar þú fórst á skólaball, og fyrst heyrðir þetta ákveðna lag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert