Handapat getur auðveldað leitina að réttu orðunum

Handapat getur auðveldað manni leitina að réttu orðunum, að því er vísindamenn við Háskólann í Alberta í Kanada hafa komist að. „Við teljum að með því að hreyfa hendurnar sé auðveldara fyrir mann að muna það sem maður er að segja frá,“ segir Elena Nicoladis, kennari við sálfræðideild skólans, en hún stjórnaði rannsókninni.

Frá þessu greinir fréttavefur The Globe and Mail. „Handapatið auðveldar manni aðgang að minninu og tungumálinu þannig að maður getur sagt betur frá,“ segir Nicoladis.

Í rannsókninni var fylgst með handapati tvítyngdra barna sem sögðu sömu söguna tvisvar, fyrst á öðru tungumálinu og síðan á hinu. Í ljós kom að börnin beittu handaðpati fremur þegar þau sögðu frá á því máli sem þau höfðu betur á valdi sínu. Kom þetta vísindamönnunum á óvart, því þeir höfðu reiknað með að börnin notuðu handapat fremur við frásögn á því máli sem væri þeim erfiðara í því skyni að koma sögunni betur til skila.

„Við héldum í fyrstu að patið hefði með merkingu að gera, að það hefði í sjálfu sér einhverja merkingu,“ segir Nicoladis. „En nú teljum við að það tengist fremur tungumálinu.“

Hún segir að þessar niðurstöður ættu að geta komið til góða þeim sem eiga í erfiðleikum með munnlega tjáningu, eins og til dæmis þá sem séu að læra ensku sem annað mál. Ef manni finnist maður eiga í erfiðleikum með að koma orðum að hlutunum geti það orðið auðveldara ef maður byrji að pata með höndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert