Ólán í kvennamálum kann að vera arfgengt

Karlmenn sem ekki eru leiknir í að fara á fjörurnar við konur geta ef til vill afsakað sig með því að mökunaratferli sé arfgeng, eftir að vísindamenn sem gerðu rannsókn á ávaxtaflugum uppgötvuðu að breyting á einu einasta geni í karlflugum dró úr hæfileika þeirra til að fá kvenflugur til við sig.

Eru þetta niðurstöður tveggja rannsókna, er gerðar voru í Bandaríkjunum og Austurríki, og birtast í tímaritunum Nature og Cell. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, segir frá þessu.

Umrætt gen er ekki að finna í mönnum, en engu að síður eru genamengi ávaxtaflugunnar og mannsins svipuð. Niðurstöður rannsóknanna benda eindregið til þess að mökunaratferli eigi sér sterkar rætur í genunum.

Þetta „mökunaratferlisgen“ í ávaxtaflugum framleiðir prótín sem stýrir mökunaratferli karlflugunnar, þ.á m. hvernig hún nálgast kvenflugur, syngur fyrir þær og biðlar til þeirra. Þegar vísindamennirnir breyttu karlflugunum þannig, að mökunaratferlisgenið var gallað sýndu flugurnar ekki lengur dæmigert mökunaratferli.

Væri þessu geni aftur á móti breytt í kvenflugum, þannig að það framleiddi áðurnefnt prótín, fóru þær að hegða sér eins og karlflugur í kvenfluguleit.

Bandarísku vísindamennirnir telja afar líklegt að mökunaratferli manna eigi sér svipaðar líffræðilegar forsendur. Þeir viðurkenna þó, að fara verði varlega í að draga ályktanir um eina dýrategund út frá rannsóknum á annarri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert