Tveir geimfarar í rúmlega 6 klukkustunda geimgöngu

Geimfarinn Soichi Noguchi rannsakar hvort skemmdir hafi orðið á Discovery.
Geimfarinn Soichi Noguchi rannsakar hvort skemmdir hafi orðið á Discovery. AP

Tveir geimfarar fóru í geimgöngu í morgun og prófuðu viðgerðartækni, sem þróuð var eftir að geimferjan Kólumbía fórst fyrir rúmum tveimur árum. „Þvílíkt útsýni," hrópaði Soichi Noguchi þegar hann kom út úr geimferjunni Discovery, sem þá var í 357 km hæð yfir Mið-Asíu. Noguchi og Stephen Robinson þurftu að æfa sig í um klukkutíma eftir að þeir komu út úr ferjunni og gátu hafið verk sitt.

Alls voru geimfararnir tveir utan við ferjuna í sex og hálfa klukkustund. Gerðu þeir tilraunir með viðgerðarefni, sem hægt er að nota til að gera við hitaþolnar flísar, sem kunna að hafa skemmst í geimskotinu.

Geimfararnir tímasettu geimgönguna þannig að aðstæður væru sem bestar. Hitinn í geimnum getur breyst mjög hratt: ef geimfarið er í sólskini getur hitinn farið í 120 gráður en ef myrkur er getur orðið 157 stiga frost.

Robinson sagði að tilraunin hefði gengið vel og viðgerðarefnið hefði virkað eins og ætlast er til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert