Bankastjóri stingur af með 790 milljarða ISK

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

ÞEIR sem héldu að tími óheiðarlegra bankastjóra sem stinga af með peninga viðskiptavinanna sé liðinn ættu að hugsa sinn gang. Einmitt þetta gerðist í tölvuleiknum EVE Online, sem er svokallaður fjölþátttökuleikur sem er spilaður í gegnum netið og er hann hannaður af íslenska fyrirtækinu CCP hf.

Magnús Bergsson, markaðsstjóri CCP, staðfesti í gær að fyrirtækið væri að kanna fréttir af bíræfnu ráni sem framið var inni í tölvuleiknum, þar sem einn af notendunum stofnaði banka með gjaldmiðilinn ISK, sem er gjaldmiðillinn í tölvuleiknum. Bankastjórinn lofaði þeim sem legðu rafrænu peningana sína á reikninga bankans vöxtum, en eftir nokkra mánuði stakk hann þessum rafrænu peningum í sinn rafræna vasa og stakk af frá öllum skuldbindingum bankans.

"Í raun og veru er ekkert í leiknum sem bannar þetta. Þetta er mjög vondur heimur þar sem allt er í raun löglegt, þótt þetta sé vissulega siðlaust. Menn geta notað ýmis brögð til þess að plata fólk til að láta þá fá peninga, innan ákveðinna marka. [...] Ef þetta er allt rétt og satt er þetta líklega stærsta peningasvindlið sem framið hefur verið í svona leik," segir Magnús.

Talið er að upphæðin sem bankastjórinn stal af öðrum spilurum hafi verið um 790 milljarðar ISK, en Magnús gat í gær ekki staðfest að sú upphæð væri rétt. Hann segir engar reglur gilda í leiknum sem geti náð til bankastjórans bíræfna og geti hann því lifað í vellystingum í tölvuleiknum með stolnu fjármununum.

Hann segir þó ekkert sem stöðvar aðra spilara í því að taka höndum saman og hefna sín á bankastjóranum, ef hann finnst.

"Gersamlega siðlaust"

"Ég vona að þeir geri það, hann á það innilega skilið. Þetta er gersamlega siðlaust, en innan þeirra reglna sem leikurinn setur."

Þetta rán á tölvuleikjapeningum hefur þó alvarlega hlið, enda er hægt að selja tölvupeningana fyrir raunverulega peninga. Reyndar gengur það gegn reglum leiksins og ef upp kemst um slík viðskipti eru spilarar settir í bann, en engu að síður eru viðskipti með tölvuleikjapeninga blómleg.

Verðmæti hvers milljarðs ISK er um 215 dollarar, eftir því sem næst verður komist, sem jafngildir um 15 þúsund krónum. Verðmæti milljarðanna 790 gæti því verið um 12 milljónir króna.

Í HNOTSKURN

Ef upphæðin sem bankastjórinn í EVE Online stal reynist vera 790 milljarðar ISK er þetta langstærsti hvítflibbaglæpurinn í fjölþátttökutölvuleik frá upphafi.

Hægt er að selja gjaldmiðil EVE Online fyrir raunverulega peninga í gegnum netið, hver milljarður leikjapeninga kostar gjarnan um 15 þúsund krónur. Verðmæti ránsfengs bankastjórans óheiðarlega er því um 12 milljónir króna.

Bellibrögð af þessu tagi eru leyfileg í leiknum, en bannað er að selja ágóðann. Gæti því bankastjórinn fyrrverandi lent í banni frá tölvuleiknum ef hann reynir að selja tölvupeningana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka