Myntin sýnir ljótan sannleika um Kleópötru

Kleópatra var ef til vill ekki sú fegurðardís sem talið …
Kleópatra var ef til vill ekki sú fegurðardís sem talið hefur verið. AP

Tvö þúsund ára gömul mynt sem nýlega kom í leitirnar í Bretlandi hefur leitt í ljós að Kleópatra, drottning Egypta, og ástmaður hennar, rómverski hershöfðinginn Markús Antoníus, voru líklega ekki það myndarfólk sem kvikmyndaframleiðendur í Hollywood hafa talið áhorfendum trú um.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC. Það eru sérfræðingar við Newcastle-háskóla sem hafa rannsakað myntina, sem er frá árinu 32 f.Kr.

Af myntinni má ráða að Kleópatra hafi verið með oddmjóa höku, þunnar varir og hvasst nef. Ástmaðurinn hennar frægi virðist hafa verið svírasver, með útstæð augu og króknef.

Myntin fannst í safni sem er í eigu Fornminjasafns Newcastle, en nú er verið að kanna það í tilefni af væntanlegri opnun nýs safns, Great North Museum.

Ímynd Kleópötru hefur verið af fagurri drottningu sem rómverskir stjórnmálamenn og hershöfðingjar dáðu. Framkvæmdastjóri fornminjasafns skólans, Lindsay Allason-Jones, segir að í ritum rómverskra rithöfunda sé Kleópatra sögð búa yfir vitsmunum og persónutöfrum, og að rödd hennar hafi verið seiðandi, „en það segir sína sögu að þeir minntust ekki á fegurð hennar“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert