Norskur stjórnmálaflokkur leggur til bann við afritunarvörnum

Í ályktun Venstre segir að lög um höfundarrétt séu úrelt …
Í ályktun Venstre segir að lög um höfundarrétt séu úrelt og að samfélag þar sem allir hafi aðgang að þekkingu og menningu sé öllum til hagsbóta Reuters

Frjálslyndi miðjuflokkurinn Venstre í Noregi hefur samþykkt ályktun þar sem hvatt er til þess að öll dreifing á höfundarréttarvörðu efni til einkanota verði gefin frjáls. Þetta er í fyrsta skipti sem rótgróinn flokkur í Evrópu tekur slíka afstöðu, en samkvæmt ályktuninni er einnig lagt til að dreifing efnis með stafrænum höfundarréttarvörnum verði bönnuð.

Ályktunin var lögð fram af ungliðahreyfingu flokksins, en samþykkt á flokksþingi nú um helgina.

Í ályktuninni segir að öll notkun efnis sem greitt hefur verið fyrir eigi að vera frjáls, þannig brjóti stafrænar höfundarréttarvarnir (DRM) á rétti neytenda með því að takmarka möguleika til að afrita keypt, geyma eða færa á aðra miðla.

Þá er þess krafist að notkun hljóðbúta annarra listamanna, til að framleiða tónlist, svokölluð hljóðsmölun, verði einnig gefin frjáls og að líftími höfundarréttar verði styttur. Höfundarréttur í Noregi gildir nú í 70 ár eftir dauða höfundar, en segir í ályktuninni að þetta sé ósanngjarnt og komi í veg fyrir framþróun og útbreiðslu menningar.

Venstre er elsti starfandi flokkur Noregs, og á tíu þingmenn á norska Stórþinginu. Flokkurinn sat í ríkisstjórn Kjell Magne Bondevik fram til ársins 2005 en hefur síðan verið í stjórnarandstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert