fim. 28. mars 2024 18:00
Hrefna Laufey Ingólfsdóttir húsfreyjan að Ásum býður upp á girnilegan páskabröns.
Húsfreyjan á Ásum býður í páskabröns

Húsfreyjan á Ásum í Eyjafjarðarsveit, Hrefna Lauf­ey Ing­ólfs­dótt­ir hefur dálæti af því að skreyta og hafa fallegt kringum sig og sérstaklega á hátíðisdögum eins og páskunum. Hún er mikill matgæðingur og elskar fátt meira en að töfra fram fallegar kræsingar fyrir gesti sína  kitla bragðlaukana og grípa augað. Í tilefni páskahátíðarinnar deilir hún með lesendum matarvefs mbl.is uppskriftum fyrir girnilegan páskabröns sem á vel við á páskadagsmorgun og í raun alla daga sem ykkur langar að gera vel ykkar besta fólk.

 

Iðulega með morgunverðarhlaðborð

Hrefna er iðulega með glæsi­legt morg­un­verðar­hlaðborð nán­ast dag­lega þar sem hún er með mat­ar­gesti í morg­un­verð en hún og eig­inmaður henn­ar Árni Sig­urðsson húsa­smíðameist­ari eiga og reka gisti­heim­ilið Ása sem er í Eyja­fjarðarsveit steinsnar frá Ak­ur­eyri. Ásar eru staðsett­ir á fal­leg­um stað í Eyjaf­irðinum um það bil tíu kíló­metra fjar­lægð frá Ak­ur­eyri þar sem mik­il veður­sæld rík­ir.

Páskarnir er fjölskyldutími hjá Hrefna og henni finnst ómetanlegt að verja samverustundum með sínu fólki á frídögum sem þessum. „Mér finnst páskarnir vera sannkallaður fjölskyldutími. Við höfum alltaf varið páskunum með fjölskyldunni og oftast heima. Þetta er tími samveru úti og inni, en það hafa ekki fylgt okkur margar hefðir um páska,“ segir Hrefna og brosir.

Útbúum góðan bröns á páskadagsmorgun

„Það er alls konar veður um páskana og við notum gjarnan dagana til að leika okkur úti í snjónum ef hann er til staðar og borða góðan mat. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á morgunverðina eða bröns. Þá sitjum við lengi og njótum. Þetta finnst mér besti tími dagsins. Á páskadagsmorgun útbúum við góðan bröns og erum þá búin að fela páskaeggin ef krakkarnir eru heima. Áður voru það okkar krakkar, núna eru það barnabörnin. Það fer yfirleitt góður tími í að leita að eggjunum og það er mjög skemmtilegt,“ segir Hrefna sem undirbýr þessar stundir ávallt vel.

 

Hrefna skreytir ávallt heimili fyrir páskana og finnur stað um allt hús til að minna á hátíðina. „Ég vandist því í uppvextinum að mamma skreytti alltaf fallega fyrir páskana. Ég hef haldið í þann sið. Ég klippi greinar í garðinum og skreyti með eggjum og svo eru túlípanarnir ómissandi.“

 

Allir gestirnir fá lítið páskaegg

Eftir að Hrefna og eiginmaðurinn hennar byrjuðu með gistihúsið hafa páskarnir aðeins breyst. „Nú síðari ár eru páskarnir með örlítið öðru sniði. Nú erum við með fullt hús af gestum á gistihúsinu okkar og erum að vinna alla páskana. En það breytir því ekki að ég skreyti fallega og allir gestirnir fá lítið páskaegg á páskadagsmorgun. Það er mjög skemmtilegt þegar gestir frá ýmsum löndum sitja við morgunverðarborðið og við reynum að útskýra fyrir þeim málshættina sem þau fá,“ segir Hrefna og hlær. Hún bætir við að stundum sé afar erfitt að að þýða málshættina því sumir eigi við íslenska siði og hefðir sem tengjast jafnvel Hávamálum svo fátt sé nefnt.

Súkkulaðipáskaeggin spila stórt hlutverk líkt og morgunverðarhlaðborðin hjá Hrefnu. Hún segir enga páska vera án eggjanna. „Við kaupum okkur nú alltaf páskaegg okkur finnst þau mjög góð, enda erum við hálfgerðir nammigrísir. En það er einhver sérstök stemning við að opna eggin á páskadag, setja þau á disk og maula á þeim fram á annan í páskum. Krakkarnir fengu auðvitað alltaf páskaegg, en ég sló nú sjálfsagt öll met þegar ég var krakki því ég fékk oft svo mörg páskaegg. Einhvern veginn var það svo að margir gáfu mér páskaegg, til að mynda krakkar sem ég var að passa, amma og frænkur mínar og svo auðvitað mamma og pabbi líka. Eina páskana fékk ég 8 páskaegg. Ég gat að sjálfsögðu ekki borðað þau öll svo þau fóru inn í búr og mamma var að nota síðasta páskaeggið um mitt sumar með kaffinu þegar óvænta gesti bar að garði,“ segir Hrefna og brosir í laumi.

 

Skemmtilegt og gefandi að útbúa morgunverð

Hrefna hefur mikla ástríðu fyrir því að bjóða fram morgunverð og gera helst allt frá grunni. Hún nostrar við matargerðina og baksturinn og ber allt svo fallega fram enda fagurkeri fram í fingurgóma. „Það er einhver sérstök ró yfir því að útbúa morgunverð og bröns. Mér finnst það einstaklega skemmtilegt og gefandi.“

Hrefna ætlar að bjóða upp á girnilegan páskabröns á páskadag og deilir hér með lesendum uppskriftum af nokkrum réttum sem hún ætlar að bera fram. „Ég ætla setja saman bröns sem er frekar í léttari kantinum. Uppskriftirnar koma héðan og þaðan og allt passar þetta mjög vel saman.

„Ég ákvað að deila með ykkur uppskrift að rúnstykkjum, sem bera heitið Rúnstykki Ömmu Rósu og eru frá tengdamóður minni heitinni. Hún bakaði þessi rúnstykki alla laugardaga og á sunnudagsmorgnum voru þau í morgunverðinum með heitu kakói. Við vorum svo heppin að búa í nágrenni við tengdaforeldra mína og oft kom tengdapabbi á sunnudagsmorgnum færandi hendi með poka af rúnstykkjum. Það streyma fram minningar þegar ég baka þessi rúnstykki og svo bragðast þau líka mjög vel. Síðan eru það uppskriftir að burrata með bökuðum tómötum, sætir sítrónubitar, mangó- og avókadósalsa og eggjamúffur. Með þessu ætla ég að bjóða upp á óáfenga mímósu sem svo frískandi og góð með brönsinum. Hún er búin til úr góðum appelsínusafa og Töst 50/50.,“ segir Hrefna að lokum.

 

 

 

 

 

Páskabröns að hættu húsfreyjunnar að Ásum

Eggjamúffur

8 stykki

Aðferð:

  1. Takið til muffinsmót eða muffinsform.
  2. Setjið eina beikon sneið í hvert mót og myndið hring með sneiðinni.
  3. Hrærið saman egg, salt og pipar.
  4. Klippið ferska steinselju og bætið saman við.
  5. Hellið eggjablöndunni inn í beikonhringinn og stráið rifnum osti yfir.
  6. Bakið við 200°C hita í um það bil 15-20 mínútur. 

 

Rúnstykki ömmu Rósu

Aðferð:

Byrjið á því að leysa gerið upp í volgri mjólk og setjið sykurinn saman við.

Hrærið saman hveiti og salt, hellið smjörlíkinu saman við og síðast mjólkurblöndunni. Hnoðið vel saman.

Látið hefast á hlýjum stað þar til það er helmingi stærra.

Búið síðan til litlar bollur úr deiginu.

Leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og látið hefst í  um það bil 30 mínútur eða þar til þær hafa lyft sér aðeins.

Penslið bollurnar með pískuðu eggi eða mjólk.

Bakið við 190°C hita  í 15 mínútur eða þar til þær verða gullinbrúnar og fallegar.

Berið fram volgar.

 

Burrata með bökuðum tómötum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C hita.
  2. Byrjið á því að skera tómatana í tvennt og setjið í eldfast mót.
  3. Skerið skalotlaukinn mjög smátt og hrærið saman við tómatana.
  4. Rífið niður smá basilíku og setjið saman við.
  5. Hrærið ólífuolíu saman við.
  6. Saltið og piprið eftir smekk.
  7. Hitið í ofni í um það bil 10 mínútur við 190°C hita.
  8. Takið út úr ofninum og setjið burrata kúluna ofan á tómatana og dreifið pestói ójafnt yfir ásamt smá slettu af balsamic ediki.
  9. Rífið niður ferska basilíku  og stráið yfir.
  10. Dreifið ristuðum furuhnetum yfir í restina.
  11. Berið fram með góðu brauði.

 

Basil pestó

Aðferð:

  1. Setjið basilíku og hnetur í matvinnsluvél og vinnið vel saman.
  2. Bætið parmesanosti og hvítlauk saman við.
  3. Maukið vel og hellið ólífuolíunni varlega saman við.
  4. Saltið og piprið eftir smekk.

 

Sætir sítrónubitar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.
  2. Fínrífið börkinn af sítrónunni og pressið safann úr henni.
  3. Bræðið smjör í potti  við vægan hita.
  4. Takið pottinn af hellunni og blandið öllum hráefnunum út í ásamt sítrónusafanum og sítrónuberkinum.
  5. Setjið deigið í ferkantaðform (22x22 cm), annaðhvort klædd bökunarpappír eða smurt með smjöri.
  6. Setjið formið inn inn í ofn og bakið í um það bil 18-25 mínútur við 180°C.
  7. Látið kökuna kólna alveg áður en þið skerið hana niður í litla bita.
  8. Það er mjög gott að setja smá sítrónusmjör ofan á hvern bita og lítil páskaegg til skrauts í tilefni páskanna.

 

Mangó-og avókadósalsa

Aðferð:

  1. Brytjið allt hráefnið smátt niður og blandað saman í skál.
  2. Berið fram litríkt og fallegt.

 

til baka