fim. 28. mars 2024 16:35
Heilbrigðiseftirlitið gerði í fyrrahaust athugasemdir við ófullnægjandi geymslu matvæla í lager í Sóltúni.
Kerfi heilbrigðiseftirlitsins úrelt

Borgarráð hefur heimilað þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar að hefja útboð á skjala- og eftirlitskerfi fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER).

Eftirlitið hefur verið áberandi í fréttum undanfarið vegna rannsóknar á starfsemi athafnamannsins Davíðs Viðarssonar.

Fram kemur í greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs að núverandi staða á rafrænu umhverfi heilbrigðiseftirlitsins er ófullnægjandi.

Starfsfólk heilbrigðiseftirlitsins vinni í mörgum mismunandi tölvukerfum, bæði hvað varðar utanumhald um verkefni, áætlanir og skipulagningu eftirlits, vegna skráningar mála og gagnasöfnunar.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/03/15/oryggi_neytendans_leidarljos_heilbrigdiseftirlits/

Hamlar starfseminni

Skjalakerfi HER er GoPro-kerfi sem var innleitt árið 1998 og orðið er úrelt. Það uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til starfseminnar varðandi skil á gögnum, utanumhald um tölfræði, gagnaöryggi, birtingu gagna o.s.frv.

Þó svo að uppbyggingin á því kerfi henti sem skjalavistunarkerfi sé það orðið úrelt og þjónusta við kerfið ekki til staðar. Núverandi kerfi hamli starfsemi heilbrigðiseftirlitsins verulega.

Starfsemin hafi tekið breytingum í takt við kröfur tímans, m.a. vegna breytinga á lögum og reglum og aukinna krafna um upplýsingagjöf til almennings, til birtingar gagna á vef og gagnaskila til yfirstofnana heilbrigðiseftirlitsins. Tækniumhverfi hafi ekki fylgt með.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/11/15/eigendur_matvaelalagers_kaerdir_til_logreglu/

Langir og flóknir verkferlar

„Í dag eru verkferlar langir og flóknir og rof er á milli kerfa. Mikið er um tvíverknað og yfirsýn skortir, sem getur m.a. haft í för með sér áhættu varðandi gagnaöryggi.

Haldið er utan um eftirlitið í gamla GoPro HER (starfsleyfi, skráningar og öll gögn sem tengjast viðkomandi leyfi og viðskiptavini) og í Excel-skjölum sem innihalda eftirlitsáætlanir fyrir árið.

Nokkur önnur kerfi eru í notkun s.s. SafetyCulture, Main Manager auk þess sem unnið er á pappír. Þetta kallar á rof milli kerfa, tvíverknað við skráningar, hætta á mistökum og villum eykst og ekki er hægt að flytja upplýsingar frá þessum kerfum yfir í GoPro-skráningarkerfi,“ segir m.a. í greinargerðinni.

Nánar er fjallað um eftirlitið í Morgunblaðinu í dag.

til baka