fim. 28. mars 2024 19:00
Alls féllu átta ofan í ána í Baltimore eftir að brúin fór í sundur.
Gæti orðið stærsta útborgunin frá upphafi

Stjórnarformaður tryggingarisans Lloyd's telur að hrun Francis Scott Key-brúarinnar í Baltimore geti leitt til stærstu útborgunar sjótrygginga frá upphafi.

Sérfræðingar hafa varað við efnahagslegum afleiðingum slyssins. Höfnin er ein sú mikilvægasta í Bandaríkjunum, hvort sem litið er til um­fangs inn­flutn­ings­vara eða verðmætis þeirra. 

Snemma á þriðjudag hrundi brúin í borginni Maryland eftir að gámaskip skall af fullum þunga á einum brúarstólpanna. Skipið varð aflvana skömmu áður. 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/03/26/gatu_ekki_styrt_skipinu/

 

Margra milljarða dala tjón

„Þetta lítur út fyrir að vera mjög umtalsvert tjón, hugsanlega stærsta sjóvátryggða tjónið frá upphafi, en ekki utan þess ramma sem við gerum ráð fyrir,“ sagði stjórnarformaðurinn Bruce Carnegie-Brown í samtali við viðskiptafréttastofuna CNBC.

Hann býst við að vátryggjendur verði fyrir margra milljarða dala tjóni eftir hamfarirnar.

Breski bank­inn Barclays hefur gefið út að kröfur vegna skemmda á brúnni einni og sér gætu numið 1,2 milljörðum dala.

Þá gætu tryggingafélögin þurft að greiða út á milli 350 til 700 milljónir dala vegna dauðsfalla og sennilega þarf að greiða hundruð milljóna dala til viðbótar vegna truflunar á viðskiptum.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/03/27/fundu_lik_tveggja_i_anni/

 

Efnahagslegar afleiðingar slyssins verulegar

Umferð skipa við höfnina í Baltimore var stöðvuð eftir slysið, enda liggur brak brúarinnar þar enn. Um 100 til 200 milljónir dala af verðmætum fara daglega þar í gegn. 

Wes Moore ríkisstjóri Maryland hefur varað við því að fyrir utan þá 15 þúsund starfsmenn sem starfa við höfnina gætu 140 þúsund manns orðið fyrir óbeinum afleiðingum slyssins. 

Carnegie-Brown varaði einnig við því að óbein áhrif af slysinu yrðu veruleg. 

„Mörg viðskipti munu truflast,“ sagði hann og benti á að birgðakeðjur muni raskast vegna skipa sem eru föst í höfninni og skipa sem bíða þess að fá aðgang. 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/03/27/skipid_med_tilskilin_leyfi_og_stodst_skodanir/

 

Forsetinn lofar stuðningi

Starfshópur bandarískra stjórnvalda um truflanir á birgðakeðjum kom saman til fundar á miðvikudag til að ræða hugsanleg áhrif á svæðisbundnar og innlendar birgðakeðjur, að því er segir í yfirlýsingu Hvíta hússins.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði sig um slysið fyrr í vikunni og hét þá nauðsynlegum stuðningi ríkisstjórnarinnar til þess að takast á við slysið. 

Alls féllu átta ofan í ána þegar flutn­inga­skipið sigldi á brúna. Sex eru tal­dir hafa látið lífið í slys­inu en tveim­ur var bjargað úr ánni.

til baka