fim. 25. apr. 2024 10:00
Útgáfuhófið fór fram í tveimur hollum á Thorsplani í Hafnarfirði.
Risastórt útgáfuhóf á Thorsplani

Barnabókahöfundarnir Gunnar Helgason og Bergrún Íris Sævarsdóttir fögnuðu útgáfu bókarinnar Læk í gær með risastóru útgáfuhófi sem fram fór í tveimur hollum á Thorsplani í Hafnarfirði.

Þangað mættu um 3.000 manns en bókin er samstarfsverkefni höfundanna og nemenda á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar. Um er að ræða 18 smásögur sem þau Bergrún Íris og Gunnar sömdu, hún fyrir miðstigið og hann fyrir unglingastigið. Þurftu grunnskólabörnin að skrifa niður hugmyndir að söguþræði, sögupersónu og sögustað sem síðan voru settar í pott, dregið úr og unnið með.

Í útgáfuhófinu sáu bræðurnir í Væb um að skemmta krökkunum, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri flutti ávarp og höfundar lásu upp úr bókinni. Nemendur á mið- og unglingastigi fengu síðan bókina að gjöf og gafst kostur á að fá hana áritaða á eftir.

til baka