mán. 29. apr. 2024 07:00
Áfengið flæðir inni á velstæðum heimilum.
Börn velstæðra drekka meira

Normalísering áfengis meðal foreldra sem tilheyrir millistétt er talin eiga þátt í því að drykkja ungmenna hefur aukist í Bretlandi. Þetta segja sérfræðingar þar í landi.

Eitt af þremur börnum hefur bragðað áfengi í kringum ellefu ára aldurinn. Og eitt af tveimur börnum fyrir 13 ára aldur. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er þetta með hæstu hlutföllunum af þeim 44 löndum sem tekin voru til greiningar.

Líkja eftir foreldrum

Börn af velstæðum heimilum eru líklegust til þess að drekka. Þau eru talin líkja eftir hegðun foreldra sinna sem leyfa sér vín á heimilinu. Þá gæti þetta einnig verið leifar heimsfaraldursins þar sem börn og fullorðnir voru mikið inni á heimilum sínum og þeir fullorðnu að drekka í kringum börnin.

Rannsóknin er eins sú viðamesta sinnar tegundar og greinir gögn frá um 280 þúsund börnum. Þar kemur einnig fram að bresk börn eru hvað duglegust að nota rafsígarettur.

Samkvæmt greiningum þá höfðu 34% stúlkna og 35% drengja bragðað áfengi við 11 ára aldur en almennt á heimsvísu er hlutfall þessa aldurshóps í kringum 15%. 

Mikill munur á milli tekjuhópa

Við 15 ára aldur eru skörp skil á milli drengja eftir því af hvernig heimili þeir koma. 56% drengja af velstæðum heimilum hafa drukkið áfengi samanborið við 39% drengja af lágtekjuheimilum. Þetta bil er ekki jafnmikið þegar kemur að stúlkum eða 55% og 50%.

„Þessi munur getur verið að endurspegla samfélagsleg norm meðal millistéttarinnar,“ segir Jo Inchley frá Háskólanum í Glasgow í viðtali við Daily Mail en hún kom að rannsókninni sem vísað er til.

„Áfengi er meira viðurkennt innan velstæðra fjölskyldna og áfengið er aðgengilegra með auknum fjármunum. Þá er áfengi gjarnan haft við hönd á ýmsum íþróttaviðburðum og í íþróttaklúbbum sem höfða til ungmenna.“

„Börn virðast einnig vera að byrja fyrr að drekka sem gætu verið áhrif heimsfaraldurs. Áhrif einangrunarinnar á félagslegu hliðina voru umtalsverð og sérstaklega hvað varðar þennan hóp.“

Mýta að verið sé að kenna hófsemi

„Fólk virðist halda að það að benda börnum á hófsama drykkju sé góð leið til þess að kenna þeim að meðhöndla áfengi. Þetta er ekki rétt. Því fyrr sem börn byrja að drekka því líklegri eru þau til að þróa með sér vandamál seinna á ævinni,“ segir Katherine Severi, læknir og forstöðumaður stofnunar um áfengisrannsóknir.

„Slíkt umhverfi leiðir til normalíseringar á drykkju og samfélagslegrar blindu gagnvart skaðsemi áfengis.“

 

til baka