fös. 26. apr. 2024 12:35
Bubbi Morthens.
Segir kynlíf og veiði stoppa tímann

„Sumarið er tíminn en ég læt veturinn ekki fara mikið í mig,“ sagði tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens í Ísland vaknar. Hann er harður við sjálfan sig yfir vetrartímann, þá skrifar hann mikið og æfir en slakar aðeins betur á yfir sumarið. 

„Svo er ég með einhverja gulrót. Galdurinn við það að eiga gott líf er að hlakka til einhvers hvers einasta dags.“

Ástríðan stoppar tímann

Líkamsrækt er mikilvæg fyrir honum en nú þegar birtir til gefur hann sér tíma fyrir garðinn og laxveiðina. „Þar vaknar maður sex og byrjar að veiða klukkan sjö. Ég veiði í alvörunni, ég er að og er mjög duglegur að labba og allt þetta. Svo verðuru þreyttur, en fólk fattar ekki að það er lágt orkustig og maður hleður sig með æfingum en ekki með því að leggjast. Svo er maður búinn að veiða klukkan tíu og þá eru menn að fara að borða, ég borða ekki á þessum tíma en er kannski með hnetur. Ég fer að sofa klukkan ellefu, en þá eru menn að byrja að borða og svo eru menn að fá sér.“ 

Koma til þín textar eða lög þegar þú stendur í miðri á? „Nei, ég núlla mig algjörlega í veiðinni. Ég segi eins og Bruce Lee, ég verð vatn,“ segir hann og hlær. 

„Það er rosalega góð tilfinning. Það er svo skrýtið að það eru tveir hlutir sem stoppa tímann og lífsklukkuna. Það er kynlíf og veiði. Þú eldist ekki meðan þú stundar kynlíf svo gerðu mikið að því. Svo ef þú hefur ástríðu fyrir einhverju, það þarf ekki að vera veiði en hún er það fyrir mér, gerðu þá nógu mikið djöfull af því.“

Hefur ekki það sem þarf í forsetaembættið

Undafarna mánuði hafa hrúgast inn skilaboðin til Bubba verðandi forsetakosningarnar en hann gefur lítið fyrir það. „Maður þarf að hafa eitthvað til brunns að bera, Katrín hefur það finnst mér, en ég hef það ekki. Ég fékk kannski 100-200 tölvupósta og sumir hafa boðið sig fram fyrir minna.

En ég vakna ekki og hugsa: Jæja Bubbi þú ert svo frægur og klár og hvernig væri að verða forseti? Við erum með nokkra í þessari deild í framboðinu. Ég myndi ekki einu sinni íhuga það ef að tíu þúsund kæmu að mér. Ég hef ekki það sem til þarf til að verða forseti, „that's it.“ Ég þekki sjálfan mig, ég þekki getustigið mitt, hverju ég nenni, hvar styrkleikar og veikleikar mínir liggja og ég hef þetta ekki. Það er rosalega góð tilfinning að vita það,“ segir Bubbi. 

„Svo er fólk sem hefur þetta en vaknar ekki með þessa klikkuðu hugmynd. Það þarf að vera eftirspurn eftir frambjóðanda og þegar hann finnur að það sé verið að kalla á hann þá stígur hann fram. Það er mín tilfinning fyrir þessu.“

Ögrar sjálfum sér á nýrri plötu

Von er á nýrri plötu frá Bubba í haust sem er poppuð, lífræn og ekta að hans sögn. Platan varð til fyrir einu og hálfu ári en hann ákvað að bíða aðeins með útgáfu. 

„Ég gerði aðra plötu í millitíðinni og kaus að gefa hana út á undan, Ljós og skuggar. Vegna þess að mér fannst hún vera meira „current“ og talaði meira inn í það sem er að gerast. Mig langaði líka að gera pötu sem hafði ekki neitt til brunns að bera að verða streymis- eða útvarpshittari. Mig langaði að gera plötu sem væri bæði pólitísk og ég væri að taka á efnum sem standa mér nærri. Sem sagt dauða unga fólksins okkar í ópíóðafaraldrinum, hlýnun jarðar og svo framvegis. 

Mig langaði að hafa hana þunga og dimma. Útgefandinn var ekkert rosalega spenntur en ég vissi líka að ég væri að gera plötu sem myndi höfða til harðkjarnans og þeirra sem halda extra mikið upp á mig. Þeir væru að fá sína nördaplötu.“ 

Á næstu plötu fer hann út úr kassanum sem aðrir gætu hafa sett hann í og ögrar sjálfum sér. „Mig langaði að vísa í tónlist sem var vinsæl um svona 1974-1980. Ég vísa í Blondie, Rolling Stones, Neneh Cherry og 7 Seconds, tónlist sem ég elskaði, hlustaði á en sagði ekki frá.

En platan er mjög poppuð og dansvæn. Hún er lífræn og það er ekki búið að gelda tónlistina. Það er hljómsveit að spila og söngvari að syngja.“

Hlustaðu á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 

 

til baka