lau. 27. apr. 2024 13:43
Ægir Sindri Bjarnason tónlistarmaður.
Ægir Sindri hlaut fyrsta styrkinn úr sjóði Prins Póló

Ægir Sindri Bjarnason tónlistarmaður hlaut fyrsta styrkinn úr Minningarsjóði Svavars Péturs Eysteinssonar, sem var bet­ur þekkt­ur sem Prins Póló. Styrkurinn hljóðar upp á eina milljón króna.

Þetta var tilkynnt á Hammondhátíð á Djúpavogi í gær, 26. apríl, á afmælisdegi Prins Póló.

 https://www.mbl.is/folk/frettir/2024/04/25/prins_polo_snyr_heim_a_hammondhatidina/

Í tilkynningu segir að Ægir Sindri sótti um styrk fyrir rekstur á tónleikarýminu R6013 við Ingólfsstræti sem hann hefur rekið í nokkur ár og haldið fjölmarga tónleika.

Í rökstuðningi stjórnar Minningarsjóðs SPE segir: „Verkefnið er frumkvöðlastarf sem er keyrt áfram af miklum drifkrafti, hugsjón og skýrri sýn. Það styður við fjölda listamanna og við grasrót tónlistarstarfs ásamt því að gefa tónlistarfólki færi á að koma sér á framfæri. Verkefnið er jafnframt vel afmarkað og með skýra áætlun. Stjórn Minningarsjóðs Svavars Péturs Eysteinssonar styður með stolti við verkefnið þar sem það er í anda Svavars Péturs að stefna saman tónlistarfólki með tónleikahaldi sem er opið öllum tónlistarstefnum sem og kynslóðum.“ 

Minningarsjóður Svavars Péturs var stofnaður árið 2023 með það að leiðarljósi að halda minningu listamannsins á lofti. Svavar Pétur lést úr krabbameini 29. september árið 2022. 

Markmið sjóðsins er að styðja við listamenn og frumkvöðla sem vinna í sama anda og Svavar Pétur.

til baka