sun. 28. apr. 2024 09:00
Unnar Rúnarsson skoraði seinna mark Íslands
Tap gegn Ísrael og féllu um deild

Karlalandslið Íslands í íshokkí féll í gær niður í 2. deild B á heimsmeistaramótinu þegar það tapaði fyrir Ísrael í lokaleik sínum á mótinu í Króatíu, 4:2.

Íslenska liðið varð að vinna leikinn í venjulegum leiktíma til að senda Ísraelsmenn niður um deild og það byrjaði vel því Gunnar Arason skoraði undir lok fyrsta leikhluta og Ísland var með forystu að honum loknum, 1:0.

Ísrael jafnaði um miðjan annan leikhluta, 1:1, og þannig var staðan þar til aðeins átta mínútur voru eftir af leiknum. Þá skoraði ísraelska liðið þrjú mörk með stuttu millibili áður en Unnar Rúnarsson minnkaði muninn í 4:2 á lokamínútu leiksins.

Króatía vann deildina og fer upp í 1. deild B. Serbía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Ísrael og Ástralía leika áfram í 2. deild A en það kemur í hlut Íslands að falla í 2. deild B.

til baka