Mánudagur, 6. júlí 2009

Svavar Júlíusson

Svavar Júlíusson fæddist í Sólheimatungu við Laugarásveg í Reykjavík 23. apríl 1935. Hann lést á heimili sínu, Lyngbergi 11 í Hafnarfirði, 29. júní sl. Foreldrar hans voru Magnea Vilborg Guðjónsdóttir, f. 6.10. 1903, d. 2.11. 1960 og Júlíus Jónsson skósmiður, f. 13.7. 1892, d. 6.7. 1964. Systkini Svavars eru Valgerður, f. 1925, maki Haukur Ottesen, f. 1922, Jón, prentari, f. 1928, d. 1988, maki Guðný Valgeirsdóttir, f. 1930, d. 2008, og Selma, f. 1937, maki Óskar Indriðason, f. 1930. Fyrri kona Svavars var Unnur K. Sveinsdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Hólmfríður Sigríður, f. 10.1. 1953, maki Ingimar Ingimarsson. Börn þeirra: a) Ingimar, maki Ásta Andrésdóttir, b) Brynhildur, dóttir hennar er Alessandra, og c) Róbert. 2) Sveinbjörg Júlía, f. 18.5. 1954, maki Leifur Steinn Elísson. Bön þeirra: a) Elfa Dögg, maki Ómar Jónsson, börn þeirra Dagur Steinn, Arna Ösp og Jökull Bjarki. b) Unnur Mjöll, maki Einar Gústafsson, dætur þeirra Júlía Lóa og Diljá Sóley. c) Sindri Snær. d) Silja Ýr. 3) Hlynur Ómar, f. 27.8. 1955, sonur hans er Unnar Freyr. Seinni kona Svavars og lífsförunautur er Helga Þórðardóttir, f. 30.10. 1940. Dóttir þeirra er Magnea Vilborg, f. 2.8. 1961, maki Ólafur Arnfjörð Guðmundsson. Börn þeirra eru a) Sigríður Arnfjörð, unnusti Hjörtur Logi Valgarðsson, og b) Svavar Arnfjörð. Dóttir Magneu og Sigurðar Ólafssonar er Helga Rán, unnusti Einar Oddsson. Stjúpbörn Magneu eru María Unnur, maki Sigurður Rúnar Nóason, dætur þeirra Viktoría og Karólína Sjöfn og Gunnar Helgi, f. 1974, d. 1994. Svavar varð búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1952. Sölustjóri í SAVA, Sameinuðu verksmiðjuafgreiðslunni. Kaupfélagsstjóri Kaupfélags Tálknafjarðar og Kaupfélags Vestur-Barðstrendinga í 20 ár. Skókaupmaður í Skóhöllinni í Hafnarfirði og ECCO skóbúðinni á Laugavegi í 20 ár. Útför Svavars fór fram í kyrrþey.

Elskulegur afi minn

Ég bað þig taka tárin mín og geyma þar til við hittumst við aðra heima.

Fyrir mér er það að skrifa hinstu kveðju fjarlægt, því ég mun aldrei geta kvatt þig.   Ég get heldur ekki rifjað upp neina eina einstaka minningu um þig því allt lífið mitt er ein stór minning um þig. Minnning um flotta og refilega afann minn sem ég var og er svo montin með, að vera afastelpan hans sem hafði ávallt mestu trúna á því sem við í fjölskyldunni tókum okkur fyrir hendur, Mér fannst um daginn að nú ætti ég engan að sem hefði sömu trú á mér en skildi svo að þessi trú á kraftinum sem býr í sjálfinu sem þú innrættir í sjálfsmynd mína er svo sterk að hún mun fylgja mér um alla ævi.  Nú faðma ég ömmu að mér og held áfram að lifa eftir þeim ráðleggingum sem þú gafst mér.

Ávallt er ég þér þakklát fyrir gjafir sem þessa og varðveiti í hjarta mínu

Helga Rán

Svavar Júlíus faðir minn er fallin frá, eftir stutt en erfið veikindi. Ég vil í því tilefni  votta eftirlifandi eiginkonu Svavars, Jónínu Helgu Þórðardóttur og öllum öðrum eftirlifandi ættingjum þeirra innilega samúð mína, samhliða sérstöku þakklæti fyrir einstaklega fallega og vel útfærða kveðjuathöfn um Svavar, sem fór fram í Áskirkju, mánudaginn 6. júlí.

Svavar og Helga hefur ætíð verið vel til vina og hefur mér ávalt verið tekið sem slíkum, allt frá því að ég man fyrst eftir mér, og síðar, frá því að ég að ég fyrst heimsótti þau hjón vestur á Tálknafjörð í bernsku. Svavar hafði alltaf mjög ákveðnar skoðanir um menn og málefni og hikaði hann ekki við að segja þær skoðanir sínar um hvern þann sem í hlut átti. Sérstaklega þótti mér þó eftirtektarvert að á dánarbeði sínu hafði Svavar mikið sterkari skoðanir um dags dagleg málefni, en endilega um það hvert veikindi hans myndu leiða hann að lokum. Tók Svavar  þeim þjáningum öllum bæði með einstöku æðruleysi og þolgæði, og á það við þau hjónin bæði. 

Hin síðari ár höfum við Svavar og Helga átt ágætan kunningsskap okkar í  milli og áttum við Svavar auðvelt með að skiptast á símtölum og heimsóknum ef svo bar undir. Hafa þau hjónin bæði þá átt ráð undir rifi hverju, ef taka þurfti á álitaefnum líðandi stundar. Kann ég því þeim hjónum sérstakar þakkir fyrir hlýlegt viðmót og góðan viðgerning ef ég hef átt leið um Fjörðinn á undanförnum árum, eftir að ég fluttist búferlum til Keflavíkur.

Að lokum vil ég minna á að góðu myndirnar um Svavar Júlíusson munu geymast okkur  í minningunni um ókomin ár og á ég þá sérstaklega við um minninguna um einslaklega þrautgóðan dreng á raunarstund. Hvíl þú í friði  Svavar Júlíusson og megir þú og þínir hafa ævarandi þökk fyrir ævistarfið.

Hlynur Ómar Svavarsson

Ég kveð þig hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð.

Lifðu sæll á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

( Guðrún Jóhannsdóttir)

Heiðrún Bára Jóhannesdóttir